Þetta er hreinn regnskógur

Sólrun Jákupsdóttir og Lars Løkke Rasmussen með íslenskt bygg í …
Sólrun Jákupsdóttir og Lars Løkke Rasmussen með íslenskt bygg í Hallormsstaðarskógi. mbl.is/Dagur

Norrænu forsætisráðherrunum þótti mikið til skógræktarinnar í Hallormsstaðarskógi koma. „Þetta er hreinn regnskógur miðað við það sem gengur og gerist í Færeyjum," sagði Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur við mbl.is og hló við.

Lars Løkke sótti um helgina sinn fyrsta norræna forsætisráðherrafund en hann tók við embætti forsætisráðherra Danmerkur í apríl. Hann sagðist hafa komið nokkrum sinnum til Íslands áður, þó ekki til Austurlands en ráðherrafundurinn fór fram í gær og dag á Egilsstöðum. Hins vegar hefði eiginkonan, Sólrun Jákupsdóttir, komið mun oftar til Íslands enda hefði móðursystir hennar búið lengi hér á landi en er nú flutt aftur til Færeyja.  Sólrun, sem er fædd og uppalin í Færeyjum, á frændfólk á Íslandi.

Ingrid Schulerud, eiginkona Jens Stoltenberg, sagðist skynja mikla ást á skóginum hér. Nokkuð sem Norðmenn hefðu ekki til að bera í jafn miklum mæli því þar væri svo mikið um skóga.

Matti Vanhanen, forsætisráðherra Finnlands, sagðist vera mikill áhugamaður um skógrækt og svo fróður um trjágróður að hann gæti rætt þau mál í þaula. Hann lýsti yfir ánægju með gönguferð undir leiðsögn Þórs Þorsteinssonar, skógarvarðar Austurlands en hópurinn naut einnig leiðsagnar Hjörleifs Guttormssonar.

mbl.is