Báru fatlaðan skáta á topp Oksins

Skátarnir skiptust á að bera Peppe á öxlunum upp Okið …
Skátarnir skiptust á að bera Peppe á öxlunum upp Okið - og niður aftur. Ljósmynd/Ingibjörg Hilmarsdóttir

Allir vita að skátar eru hjálpsamur hópur fólks en það er sjaldan sem sú hjálpsemi kristallast jafntært og í skátaflokknum sem fóru í 5 daga leiðangur um Húsafell í vikunni. Í hópnum voru skátar frá Spáni, Frakklandi, Finnlandi, Austurríki og Portúgal sem allir eru þátttakendur í evrópska Roverway skátamótinu sem nú fer fram hér á landi.

Meðal þess sem þessi 52 manna hópur tók sér fyrir hendur var könnunarleiðangur í Surtshelli og ganga að Hraunfossum og áttu þeir ekki orð til að lýsa aðdáun sinni á fegurð Barnafossa. Hápunktur leiðangursins var þó sjö klukkutíma gönguferð á Ok. Þó jökullinn hafi að mestu hopað vegna hlýinda var útsýnið af toppnum stórkostlegt að sögn skátanna, sem nutu heiðríkju og blíðviðris alla ferðina.

Enginn þeirra þekktist fyrr en í Leifsstöð 

Meðal þátttakenda í þessum leiðangri var portúgalski skátinn João Paulo, eða Peppe eins og hann er kallaður. Peppe er fatlaður og þarf að notast við hjólastól til að komast leiða sinna. Hann gerði því ráð fyrir að sinna verkefnum í tjaldbúðinni að Húsafelli daginn sem lagt var í gönguna á Okið. Áður hafði hann þó haft orð á því við landa sína að hann hefði aldrei komist í tæri við snjó, hvað þá farið í fjallgöngu eða nokkru sinni komið nálægt jökli.

Vegna þessa töldu portúgölsku leiðangursfélagar hans afleitt að Peppe skyldi þurfa að missa af upplifun dagsins og eftir að hafa ráðið ráðum sínum ákváðu þeir að bjóða Peppe með á tindinn, þeir skyldu einfaldlega skiptast á að bera hann á öxlum sér upp á topp. Fjallgangan var hvorki meira né minna en sjö klukkutímar en Peppe komst á toppinn á handfjatlaði þar snjó í fyrsta skipti á ævinni.

Að sögn Benjamíns Axels Árnasonar, kynningarfulltrúa Roverway mótsins, hittust portugölsku strákarnir í fyrsta skipti á Keflavíkurflugvelli við komuna til Íslands og þekktu því hvorki Peppe né hver annan áður en þeir skráðu sig á mótið. Gefur það hjálpsemi þeirra og þrekvirki enn dýpri merkingu. Má telja víst að í hlíðum Oksins hafi því myndast vinátta sem endast muni lengur en mótið sjálft. 

Skátarnir voru margir hverjir að sjá snjó í fyrsta skipti …
Skátarnir voru margir hverjir að sjá snjó í fyrsta skipti og voru hrifnir af jöklinum þótt lítill væri. Ljósmynd/Ingibjörg Hilmarsdóttir
Engin þreytumerki var að sjá á skátunum þrátt fyrir að …
Engin þreytumerki var að sjá á skátunum þrátt fyrir að gangan væri óneitanlega þyngri. Ljósmynd/Ingibjörg Hilmarsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina