Segir óraunhæft að ríkið kaupi hlut í HS Orku

Skúli Helgason.
Skúli Helgason. mbl.is/Ómar

Skúli Helgason, formaður iðnaðarnefndar Alþingis, segir að það sé óraunhæft að ríkið gangi inn í samninga Magma Energy og Orkuveitu Reykjavíkur og kaupi sjálft hlut í HS Orku til að koma í veg fyrir aðkomu Magma. Það myndi kosta ríkið um 12 milljarða kr. og slíkt fjármagn liggi ekki ekki á lausu og myndi eingöngu kalla á frekari niðurskurð í velferðarkerfinu, hærri álögur á almenning eða hvort tveggja.   

„Aðkoma ríkisins á að felast í því að tryggja að almannahagsmunir verði varðir ef af kaupum Magma verður, nýtingarrétturinn verði í samræmi við lög og ekkert umfram það, og að tryggt verði að fyrirtækið skuldbundi sig til að taka hér fullan þátt í fjárfestingum í íslensku atvinnulifi til frambúðar, nýta arðinn til frekari atvinnuuppbyggingar á Íslandi en sé ekki hingað komið til að kaupa aðgang að náttúruauðlindum þjóðarinnar á gjafverði með það fyrir augum að flytja arðinn beint úr landi,“ skrifar Skúli á bloggsíðu sína.  

Skúli tekur fram að ríkisvaldið hafi enga formlega aðkomu að málefnum HS Orku og sölu á eignarhlutum í því fyrirtæki.  En fjármálaráðherra hafi í samráði við iðnaðarráðherra tekið málið til skoðunar og það sé eðlilegt að það sé skoðað sérstaklega hvort með þessum gjörningi sé almannahagsmunum stefnt í voða eða gengið á svig við ákvæði nýlegra laga um nýtingarrétt á auðlindunum.  

mbl.is

Bloggað um fréttina