Harmar uppsagnir

Morgunblaðshúsið í Hádegismóum.
Morgunblaðshúsið í Hádegismóum.

Stjórn Blaðamannafélags Íslands hefur samþykkt ályktun þar sem harmaðar eru fjöldauppsagnir á Morgunblaðinu í dag. Þá segist stjórnin einnig telja þá ákvörðun eigenda blaðsins, að ráða umdeildan stjórnmálamann sem ritstjóra Morgunblaðsins rýra trúverðugleika blaðsins.

Í ályktun Blaðamannafélagsins segir, að þeir sem lengst hafi unnið hjá blaðinu og sagt var upp störfum í dag, hafi verið þar í um 40 ár.

„Á sama tíma og ritstjórum blaðsins sé fjölgað í tvo er gífurlegri reynslu og þekkingu nærri tuttugu blaðamanna kastað á glæ í nafni hagræðingar.

Blaðamannafélagið telur þá ákvörðun  eigenda blaðsins að ráða umdeildan stjórnmálamann sem ritstjóra Morgunblaðsins rýra trúverðugleika blaðsins. Afskipti Davíðs Oddssonar af stjórnmálum og störf hans sem seðlabankastjóri tengja hann efnahagshruninu síðasta haust með slíkum hætti að blaðamenn geta ekki við unað. Blaðamannafélagið óttast um starfsöryggi og starfsskilyrði þeirra félagsmanna sem enn starfa hjá blaðinu," segir í ályktun félagsins.

Þar er jafnframt lýst þungum áhyggjum af stöðu fjölmiðla á Íslandi, enda hafi um hundrað blaðamönnum verið sagt upp störfum síðustu misseri. Þá hafi harkalegur niðurskurður á ritstjórnum þrengt mjög að faglegri og frjálsri blaðamennsku.

„Þetta er sérstaklega hættulegt nú þegar aldrei hefur riðið jafn mikið á og nú að standa vörð um lýðræði hér á landi," segir síðan.

mbl.is