Vill endurskoða fjárveitingar til kvikmyndagerðar

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. Árni Sæberg

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, telur mikilvægt að fjárlaganefnd Alþingis fari betur yfir fjárveitingar til kvikmyndagerðar á Íslandi. Þó svo að ekki sé hægt að fá meira fjármagn er hugsanlega hægt að færa fjármagn til, kvikmyndagerð til heilla. Þráinn Bertelsson gerði málið að umtalsefni í umræðum um frumvarp til fjárlaga næsta árs.

Þráinn er mjög óánægður með minnkandi stuðning við íslenska kvikmyndagerð. Hann sagðist hafa starfað við það í 25 ára að leggja grundvöll að íslenskri kvikmyndagerð. Hún hafi ekki þróast af öðru en þvermóðsku nokkurra einstaklinga. Og hann var viss í sinni sök þegar ræddi um áhrif af minnkandi stuðningi ríkisstjórnarinnar.

„Ég geri mér það ljóst og sætti mig við þá skilgreiningu að ef undirstöður atvinnugreina þjóðfélagsins eru matur og drykkur samfélags okkar, þá eru menning og listir þau nauðsynlegu vítamín sem hvert þjóðfélag þarf á að halda til þess að vera heilbrigt og til þess að þegnarnir geti verið hamingjusamir.


Þjóðfélag án menningar og lista er ekki raunverulegt þjóðfélag heldur tímabundið samfélag manna, nokkurs konar verkstöð eða olíuborpallur  þar sem engar kröfur eru gerðar um að lífið sé hamingjusamt heldur að lífið sé notað til að vinna tímabundin verkefni og skila fjárhagslegum arði,“ sagði Þráinn í ræðu sinni.

Katrín sagði í kjölfar ræðu Þráins að styrkir til kvikmyndagerðar hefðu verið "teknir niður meira en æskilegt er". Hún vildi að þeir liðir fjárlaga yrðu teknir til endurskoðunar og sá möguleika á færslu fjármagns.

Þráinn kom því næst aftur í ræðustól og þakkaði menntamálaráðherra fyrir að benda á að ekki sé öll nótt úti fyrir íslenska kvikmyndagerð. „Ég leyfi mér að fullyrða hér og nú að íslensk kvikmyndagerð á síðari hluta síðustu aldar og það sem af er þessari hefur verið flaggskip íslenskrar menningar.“

Þráinn Bertelsson, að vísu óskeggjaður.
Þráinn Bertelsson, að vísu óskeggjaður. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert