Kraftaverkadrengur eins árs

Mánudagurinn 6. október 2008 var örlagadagur í lífi hjónanna Auðar Kjartansdóttur og Páls Guðmundssonar. Þennan dag, sem forsætisráðherra bað Guð að blessa Ísland, fór fæðing sonar þeirra af stað, tólf vikum fyrir tímann.  

Fyrir tilviljun voru hjónin stödd í Strasbourg í Frakklandi á leið á ráðstefnu þegar Auði tók að blæða og læknisskoðun leiddi í ljós að fæðingin var komin af stað. Sömuleiðis uppgötvaðist að barnið þjáðist af miklum ofvexti í lungnavef, auk þess sem brjósthol þess var fullt af vökva.  

Fæðingin var þegar stöðvuð en þremur vikum seinna var gerð aðgerð á barninu í maga móður sinnar til að fjarlægja vökvann, en innan við sólarhring síðar fæddist það eðlilegri fæðingu, um tveimur mánuðum fyrir tímann. Drengurinn undirgekkst svo stóra brjóstholsaðgerð sex klukkustundum síðar, til að fjarlægja ofvöxtinn í lunganu.   

Í gær varð Þorbergur Anton litli eins árs og er heilbrigður og kröftugur strákur. Foreldrar hans þakka forsjóninni að þau hafi verið fyrir tilviljun stödd í Strasbourg í grennd við eitt fremsta sjúkrahús í fósturlækningum í heimi þegar fæðingin fór fyrst af stað, enda eru þær aðgerðir sem sá stutti undirgekkst ytra ekki gerðar hér heima.  

Ítarlegt viðtal er við Auði og Pál í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

mbl.is