Laust fé Landsvirkjunar 40 milljarðar

Landsvirkjun segir, að laust fé fyrirtækisins nemi um 340 milljónum dala, jafnvirði um 40 milljarða króna, sem dugi til að byggja tæpar tvær Búðarhálsvirkjanir. Þá sé eigið fé Landsvirkjunar tæplega 180 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið 31,2%.  Þetta er meira eigin fé en hjá Íslandsbanka og nýja Kaupþingi samanlagt.

Þetta kemur fram í samantekt á vef Landsvirkjunar þar sem farið er yfir ýmsar fullyrðingar, sem komið hafa fram að undanförnu um fjárhagslega stöðu fyrirtækisins.

Þar segir að eiginfjárstaða Landsvirkjunar sé afar sterk miðað við velflest innlend fyritæki sem mörg hver hafi lent í erfiðleikum í kjölfar gengishruns krónunnar.  Því sé augljóst að fullyrðingin eigi ekki við nein rök að styðjast.  Ef Landsvirkjun teldist vera í eigu kröfuhafa þá ætti hið sama við um nær öll önnur fyrirtæki hérlendis, bæði í ríkiseigu og einkaeigu.  

Þá kemur fram, að erlendir lánsfjármarkaðir séu lokaðir íslenskum aðilum vegna sérstakra aðstæðna sem snúi að íslenska ríkinu.  „Á meðan ástandið er með þeim hætti er óábyrgt af hálfu Landsvirkjunar að ráðast í nýjar framkvæmdir nema að fyrirtækið hafi fjármagnað þær að fullu með nýjum langtímalánum.  Að því er unnið," segir á vef Landsvirkjunar.

Greinargerð um stöðu Landsvirkjunar

mbl.is

Bloggað um fréttina