Erfðamál Fischer væntanlega fyrir Hæstarétt

Bobby Fischer
Bobby Fischer mbl.is/Rax

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu systursona Bobby Fischer um að dánarbú Fischer verði tekið til opinberra skipta og þar með viðurkennt erfðarétt Myoko Watai sem segist vera eiginkona skákmeistarans. Guðjón Ólafur Jónsson, lögmaður systursona Fischer, á ekki von á öðru en að þeir muni kæra úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar.

Fischer lést 17. janúar 2008. Í kröfu systursona hans um opinber skipti kemur fram að þeir séu nánustu ættingjar hans.

Kynntust árið 1973

Myoko Watai óskaði hins vegar eftir einkaskiptum dánarbúsins. Hún hafi lagt fyrir sýslumann staðfestingu á að hún og Fischer hafi verið í hjúskap, útgefna á ensku af sendiráði Japans á Íslandi 30. janúar 2008 og sé hún sögð grundvölluð á fjölskylduskráningu japanskra yfirvalda. Um sé að ræða skráningu persónuupplýsinga um Watai Komi þar fram að hún hafi gifst Fischer 6. september 2004.

Af hálfu Watai kemur fram að hún hafi fyrst kynnst Fischer árið 1973 í Japan. Hann hafði þá ferðast til Japans, til þess að hitta félaga frá japanska skáksambandinu og hafi henni, sem þá var 28 ára gömul verið boðið að tefla við hann ásamt öðrum félaga í sambandinu. Í kjölfar þessa hafi tekist vinskapur milli þeirra og hafi þau haldið sambandi með bréfaskriftum, símtölum og heimsóknum.

Fischer hafi meðal annars boðið henni til Belgrad árið 1992 og hafi kærleikar tekist á milli þeirra í þeirri ferð. Þann 28. janúar 2000 hafi Fischer komið til Tókýó og flutt til hennar og búið hjá henni frá þeim tíma, de facto í hjúskap í um fjögur ár.

Á því tímabili hafi þau ferðast víða, jafnt innan sem utan Japans. Þeim hafi verið í mun að halda einkalífi sínu frá öðrum, sérstaklega fjölmiðlum. Þann 13. júlí 2004 hafi Fischer verið hnepptur í gæsluvarðhald á flugvelli í Japan á  leið til Filippseyja. Í lok sama mánaðar hafi nefnd um frelsun Fischer verið sett á laggirnar, en tilgangur hennar hafi m.a. verið að komast hjá því að japönsk yfirvöld framseldu hann til Banda­ríkjanna. Við þessar erfiðu aðstæður hafi þau ákveðið að nauðsynlegt væri að þau opinberuðu samband sitt og gengju jafnframt í hjúskap.

Við undirbúning og framkvæmd hjúskaparstofnunar þeirra, hafi öll skjöl verið sett upp á japönsku og ensku, þannig að Fishcer skildi efni þeirra nákvæmlega. Þann 17. ágúst 2004 hafi Watai farið með skjölin undirrituð til yfirvalda í Ota Ward til skráningar, en skráningunni verið hafnað á þeim grundvelli að Fischer þyrfti að útvega frekari gögn frá bandaríska sendiráðinu. Þau gögn hafi ekki fengist.

Þar sem unnt hafi verið að staðfesta hver Fischer var með öðrum hætti, hafi borgar­yfirvöld fallist á skjöl þau sem lágu til grundvallar hjúskapnum með útgáfu vottorðs þann 6. september 2004 og skráningu í fjölskylduskrá Watai. Hafi skjöl málsins þá öll verið send til japanska dómsmálaráðuneytisins. Við hafi tekið ítarleg skoðun japanskra yfirvalda á því hvort þau hefðu einungis gengið í hjúskap til þess að varna því að A yrði sendur úr landi, en slíkt sé ekki heimilt að japönskum lögum.

Dómsmálaráðherra staðfesti hjúskap

Fulltrúar þarlendra yfirvalda hafi heimsótt Fischer í gæsluvarðhald þann 5. nóvember 2004 og tekið viðtal við hann og Watai í því skyni að ganga úr skugga um hvort hjúskapurinn stæðist. Dómsmálaráðherra Japans hafi staðfest skráningu hjúskaparins eftir skoðun gagna málsins þann 28. janúar 2005.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að með lögum frá 21. mars 2005 nr. 16/2005 hafi Fischer verið veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Watai hafi fylgt Fischer til Íslands þann 24. mars 2005 og hafi síðan, þau þrjú ár sem Fischer átti heimili á Íslandi, komið yfir tuttugu sinnum til Íslands. Hafi þau átt í miklum samskiptum, jafnt í síma og með tölvupósti. 

Ógift en samt gift?

Í viðtali sem birtist við Watai á mbl.is þann 22. mars 2005 er hins vegar haft eftir henni, en hún er þar titluð heitkona Bobbys Fischers,  að hún áformaði að flytja til Íslands með Fishcer þegar hann yrði látinn laus. „Við munum skoða síðar hvort við giftum okkur á Íslandi en því ferli hefur verið frestað," sagði hún og bætti við að Fischer hefði orðið afar glaður við að heyra fréttir af íslenskum ríkisborgararétti sínum.

Sjá dóm Héraðsdóms Reykjavíkur

Miyoko Watai.
Miyoko Watai. AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert