Bannað að segja „djók“ á þingi

Tryggvi Þór Herbertsson alþingismaður Sjálfstæðisflokks.
Tryggvi Þór Herbertsson alþingismaður Sjálfstæðisflokks. mbl.is/Ómar

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, gerði athugasemd við orðalag Tryggva Þórs Herbertssonar alþingismanns í kvöld, en Tryggvi talaði um „eitt lítið djók“ þegar hann lýsti málflutningi stjórnarliða.

Tryggvi Þór sagði í andsvari við ræðu Önnu Pálu Sverrisdóttur, varaþingmanns Samfylkingar, að þegar menn teldu sig vera að laga agnúa í skattakerfinu með því t.d. að afnema vísitölutengingu persónuafsláttar þá væri það bara „eitt lítið djók“.

Þingforseti minnti þingmanninn á að menn töluðu íslensku í þingsal. Þetta var raunar í annað sinn sem Ásta Ragnheiður gerði athugasemd við ræðu Tryggva Þórs, en hann sagði „hún“ þegar hann átti að segja háttvirtur þingmaður.

mbl.is