Joly: Norðmönnum ber að aðstoða

Eva Joly, ráðgjafi sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins
Eva Joly, ráðgjafi sérstaks saksóknara vegna bankahrunsins mbl.is/Golli

Eva Joly, ráðgjafi embættis sérstaks saksóknara, segir í grein sem hún ritar í norska dagblaðið Morgenbladet í dag, að Norðmenn skuldi Íslendingum í sögulegu samhengi og þeim beri að lána Íslendingum án skilyrða. Hún segir að sér renni blóðið til skyldunnar að útskýra Icesave fyrir Norðmönnum þar sem henni virðist sem norskir fjölmiðlar viti ekki fyllilega um hvað málið snúist.

Hún segir að fyrst og fremst sé Icesave evrópskt mál en ekki ágreiningur milli Íslands og Breta og Hollendinga líkt og margir telji.

Joly fer yfir skilyrðin sem sett eru í Icesave samkomulagi ríkjanna og hversu háa fjárhæð sé krafist að Íslendingar greiði og að vaxtaprósentan sé 5,5%. Margir hafi látið glepjast af háum vöxtum á Icesave reikningum Landsbankans en stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi telji að það sé Íslendinga að greiða þar sem höfuðstöðvar Landsbankans hafi verið í Reykjavík. 

Eva Joly fer yfir það sem hún hafi þegar sagt í öðrum fjölmiðlum, að krafa Hollendinga og Breta sé ósanngjörn og hve miklar byrðar eru lagðar á íslensku þjóðina. Ísland beri einungis hluta ábyrgðarinnar og að Íslendingar neiti ekki að standa við skuldbindingar sínar en myndu frekar vilja að þær væru ekki þannig að íslenska þjóðin væri send niður á hnén. Ábyrgðin sé einnig hjá breskum og hollenskum stjórnvöldum.

Í greininni fer Joly yfir það sem hafi komið fram í fjölmiðlum að undanförnu, þar á meðal leiðaraskrif Financial Times og ummæli Miguel Angel Moratinos, utanríkisráðherra Spánar, um að engin tengsl væru á milli Icesave-málsins og aðildarumsóknar Íslands að ESB. Eins vísar hún til ummæla Davids Milibrand, utanríkisráðherra Bretlands, sem virðist vera á öðru máli en Gordon Brown, forsætisráðherra.

Í ljósi þess er hik Norðmanna gagnvart Íslendingum óskiljanlegt, segir Joly. Eins virðist gleymast landfræðileg staða landsins og þær náttúruauðlindir sem séu á Íslandi.  Ísland sé í lykilsstöðu á Norðurlöndunum og mikilvægur bandamaður Noregs. 

Joly segir í ljósi sögunnar sé eðlilegt að Norðmenn styðji Íslendinga. Hún fer yfir söguna, stöðu Magnúsar lagabætis og Heimskringlu. Íslendingar hafi varðveitt tunguna og bókmenntirnar og ef þeir hefðu ekki gert það þá væri þetta glatað og að Bjørnstjerne Bjørnson yrði ekki minnst af Norðmönnum.

Hér er grein Evu Joly í heild
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert