Fá ekki að leggja hald á fé

Hæstiréttur hefur vísað frá kröfu ríkislögreglustjóra um heimild til að leggja hald á 1,7 milljarða króna innistæður tveggja félaga á bankareikningum hjá Skandinaviska Enskilda Banken (SEB) í Svíþjóð. Málið gengist rannsókn á brotum á gjaldeyrislögum.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður fallist á kröfu ríkislögreglustjóra um að leggja hald á féð en sænsk stjórnvöld höfnuðu beiðni um að framfylgja þeim úrskurði á þeirri forsendu að meint brot væru ekki refsiverð þar í landi. Segir Hæstiréttur, að af þessum sökum verði  úrskurðinum ekki framfylgt.

Málið tengist rannsókn á meintu broti félags og einstaklinga því tengdu vegna gruns um að hafa stundað ólöglega milligöngu um gjaldeyrisviðskipti. Eru viðkomandi grunaðir um að hafa hagnast gífurlega með því að hafa ólöglega milligöngu, fyrir útflytjendur og aðra eigendur gjaldeyris, um skipti á erlendum gjaldeyri í íslenskar krónur á svonefndum aflandsmarkaði.

Gríðarlegur hagnaður

Fram kom nýlega hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra og Seðlabankanum, að verið væri að rannsaka starfsemi fyrirtækisins Aserta AB, sem skráð er í Svíþjóð, og fjögurra einstaklinga, því tengdu, sem taldir eru hafa haft raunverulega stjórn á félaginu.

Í greinargerð lögreglu, sem lögð var fyrir héraðsdóm, kemur fram að hagnaður af þessum viðskiptum hafi verið gríðarlegur enda hafi mismunur á gengi krónunnar hjá Seðlabankanum annars vegar og á aflandsmarkaði hins vegar numið tugum prósenta þegar mest var.

Brotin eru talin hafa verið framin með að taka við greiðslum í útlöndum í erlendum gjaldeyri inn á bankareikninga í nafni fyrirtækisins, sem forsvarsmenn þess síðan eru taldir hafa skipt yfir í krónur á aflandsgengi í viðkomandi bönkum. Krónurnar voru síðan millifærðar inn á reikninga þessara aðila í íslenskum bönkum en millifærðar þaðan til sömu aðila eða tengdra aðila. Með þessu högnuðust útflytjendurnir umtalsvert með því að þeir fengu fleiri krónur fyrir þann erlenda gjaldeyri sem þeir fengu fyrir útfluttar vörur og þjónustu.

Fyrirtækið og einstaklingarnir eru talin hafa fengið umtalsverða þóknun fyrir milligöngu sína, sem lögregla segir hafa verið ólöglega þar sem þau höfðu ekki leyfi til slíkra viðskipta. 

Stjórnarmenn taldir vera leppar

Fyrirtækið er skráð í Svíþjóð. Stjórnarmenn félagsins samkvæmt upplýsingum frá Svíþjóð starfa hjá fyrirtæki, sem býður upp á þá þjónustu að vera í stjórn fyrirtækja fyrir félög. Fyrirtækið hefur skráð heimilisfang sitt hjá því fyrirtæki. Efnahagsbrotadeild hefur grunsemdir um að stjórnarmennirnir séu eingöngu leppar í stjórn félagsins en raunveruleg stjórn sé í höndum fjórmenninganna, sem eru allir skráðir til heimilis í Bretlandi. Hins vegar hefur lögreglan rökstuddan grun um að þeir séu allir búsettir hér á landi og starfi hér.

Á tímabilinu frá 25. mars til 5. október 2009 bárust verulegar fjárhæðir í íslenskum krónum inn á reikninga í eigu Aserta hjá Íslandsbanka og Landsbanka Ísland, eða tæplega 13,2 milljarðar króna. Stærstur hluti þessa fjár, 11,45 milljarðar, bárust í 100 millifærslum frá SEB bankanum í Svíþjóð inn á bankareikning Landsbanka Íslands.

Af innlendum bankareikningum félagsins hjá íslenskum bönkum má að sögn lögreglu sjá, að félagið greiddi til í það minnsta 95 aðila í 731 útborgun samtals að fjárhæð 13 milljarða. Af bankagögnum megi einnig sjá að fjórmenningarnir fengu samtals 142,5 milljónir króna greiddar inn á sína persónulega reikninga hér á landi frá fyrirtækinu.

Taldir geyma ávinning í útlöndum 

Lögreglan segir, að rökstuddur grunur sé um að sakborningarnir geymi ávinning, hafi umbreytt honum í annan gjaldmiðil eða eftir atvikum leyni ávinningi fyrirtækisins af brotum þeirra og félagsins á reikningum hjá SEB bankanum í Svíþjóð. Slíkt sé sjálfstætt refsilagabrot.

Innistæður á reikningum félagsins eru taldar ávinningur sakborninga og vitorðsmanna þeirra sem geti verið grundvöllur refsiábyrgðar og upptöku ávinningsins. Af reikningsyfirlitum sakborninga á Íslandi verði ekki séð að þeir hafi nema í litlum mæli flutt til Íslands ávinning af brotum sínum heldur kunni hann að vera staðsettur erlendis og þá líklega á reikningum félagsins hjá SEB bankanum.

Efnahagsbrotadeild lagði fram ósk um liðsinni sænskra yfirvalda við að kyrrsetja eigur fyrirtækisins í Svíþjóð. Sænsk yfirvöld höfnuðu beiðni efnahagsbrotadeildar á grundvelli tvöfaldrar refsinæmi en þar í landi séu meint sakarefni í máli þessu ekki refsiverð. Lögreglan áætlar að hagnaður af viðskiptunum nemi 1,695 milljörðum króna miðað við að gengismunurinn sé að meðaltali 15% sem sé varlega áætlað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert