Menning hræðslu og tortryggni sækir á

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands.
Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands. mbl.is/Ómar

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, sagði í prédikun í páskamessu í Dómkirkjunni í morgun, að nú standi yfir tími uppgjörs og reikningsskila, reynslutími fyrir Íslendinga sem þjóð. Sagði hann að menning hræðslunnar, ótta og tortryggni sækti að okkur en páskaguðspjallið táknaði að þjáningin, sorgin, hatrið og mannvonskan muni ekki eiga síðasta orðið.

Karl sagði að enn og aftur fengju Íslendingar að heyra ljótar sögur af framferði, viðhorfum og aðstæðum sem veltu öllu um koll á Íslandi.

„Tími uppgjörs og reikningsskila stendur yfir, reynslutími fyrir okkur öll sem þjóð. Vafalaust einhver erfiðasta prófraun sem við höfum staðið andspænis. Hún snýst ekki bara um lögfræði og fjármál heldur siðgæði okkar og menningu og snertir samfélag okkar og samvisku í kviku. Og við hljótum að gaumgæfa þá spurn hvernig við ætlum okkur að vinna úr þessu og byggja hér upp að nýju án þess að endurtaka sama leikinn," sagði Karl.

Hann spurði hvort það gæti verið svo, að orsökin fyrir því hvernig komið væri hér á Íslandi sé sú að Íslendingar hafi viljað vera svo opnir fyrir öllu, víðsýnir og frjálshuga að hér hafi helst ekki mátt setja nein mörk.

„Okkur voru sannarlega sýnd öll ríki veraldar  og heitið öllum heimsins auði fyrirhafnarlaust eða þannig. Þurfum við ekki öll að skoða hug okkar í skuggsjá samtímans og spyrja hvernig við höfum hugsanlega stuðlað að samfélagi, sem ýtir undir sjálfdæmishyggju, sjálfselsku, jafnvel siðblindu. Og nú sækir menning hræðslunnar, ótta og tortryggni að okkur.  Við erum öll ábyrg sem einstaklingar, sem stofnanir og sem samfélag, höfum öll áhrif. Breytni okkar, viðhorf, efasemdir og trú, hverju við játumst og hverju við afneitum í orðum og verkum. Viðmið okkar og gildismat hefur áhrif og mótar samfélag okkar og menningu," sagði Karl.

Hann sagði að páskaguðspjallið um upprisu hins krossfesta táknaði von um réttlæti, að þjáningin og sorgin, hatrið og mannvonskan, siðspillingin, syndin, ranglætið og dauðinn muni ekki hafa síðasta orðið.

„Kristur hefur brotið afl hins illa á bak aftur. Andi hins krossfesta og upprisna vill og getur ummyndað lífið allt og samfélag manna birtu og fegurð fyrirgefningar, lífs og vonar. Og framtíðin, svo óræð og myrkri hulin, sem hún er, þar kemur hinn upprisni á móti þér með morgunbirtu sína og fegurð. Heyrum við ekki okkar eigin hjartslátt í þeim boðskap?" sagði biskup.

Páskaprédikun biskups Íslands

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert