Samþykkt að boða til aukalandsfundar

Á miðstjórnarfundi Sjálfstæðisflokksins í dag var samþykkt tillaga Bjarna Benediktssonar, formanns flokksins, að boða til aukalandsfundar í sumar. Þar yrði forysta flokksins kjörin, þ.m.t. formaður og varaformaður.

Nákvæm tímasetning liggur ekki fyrir, en stefnt er að því að efna til aukalandsfundar annað hvort fyrir sumarfrí í júní eða í lok sumars.

Miðstjórn mun koma aftur saman á morgun klukkan 17 þar sem allar tímasetningar verða ákveðnar.

Þá var samþykkt á fundinum að setja á laggirnar viðbragðshóp sem ætlað er að fara yfir efni skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og gera tillögur til Sjálfstæðisflokksins um viðbrögð við efni hennar.

Fundur miðstjórnar hófst klukkan eitt og lauk um 15:30.

Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, við …
Jónmundur Guðmarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, við upphaf miðstjórnarfundarins. mbl.is/Golli
mbl.is