Askan fellur yfir Hvolsvöll

Kolsvört aska yfir Hvolsvelli nú í morgunsárið.
Kolsvört aska yfir Hvolsvelli nú í morgunsárið. mbl.is/Lögreglan á Hvolsvelli.

Öskurigning er nú á Suðurlandsvegi í Holtum en vindátt frá eldunum í Eyjafjallajökli hefur nú snúist til vestlægrar áttar. „Lögreglubílarnir hér fyrir utan eru að verða svartir,“ sagði Ellert Ingvason lögreglumaður á Hvolsvelli í samtali við mbl.is fyrir stundu.

Talsvert öskufall er í Fljótshlíð og að sögn vegfarenda slíkt að rúðuþurrkur á bílum hafa ekki undan. Rigning er á svæðinu sem aska fellur með en hún virðist sýnu meiri en vatnið. Fyrir vikið er engu líkara en eðja falli af hinum. Það sem af er gosinu hefur aska ekki borist í neinum teljandi mæli til vesturs, fyrr en nú.

„Nú er heldur að birta til en það var ansi svart hér um klukkan sex í morgun. Ég vona bara að þessu fylgi væta, enda skolar þá öskunni af gróandanum. Núna stend ég hér úti á hlaði og myndi ekki hreyfa bílinn nema skola af honum áður,“sagði Eggert Pálsson bóndi á Kirkjulæk í Fljótshlíð. Hann segir mikinn óróa fylgja gosinu. „Við vorum að stússa í sauðfénu fram til klukkan eitt í nótt og þá voru mikil læti í fjallinu, eldingar og glampar. Ég vona bara að gosinu fari að ljúka enda er nú komið á fimmtu viku frá því það hófst.“

mbl.is