Segir sig úr ríkisfjármálahópi

LIlja Mósesdóttir
LIlja Mósesdóttir Kristinn Ingvarsson

Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, hefur sagt sig úr hópi stjórnarþingmanna sem undirbýr niðurskurð í ríkisfjármálum, að því er Ríkisútvarpið greindi frá. Lilja sagði í samtali við RÚV að sér hafi komið á óvart að Björn Valur Gíslason, formaður hópsins, skyldi tilkynna tillögur um skattahækkanir. 

Lilja sagði að sér hafi ekki verið kunnugt um að ríkisfjármálahópurinn hafi átt að gera tillögur um skattahækkanir. Annar hópur hafi verið myndaður á vegum fjármálaráðuneytisins til að ræða um þær. Í þeim hópi hafi m.a. setið embættismenn og fulltrúar aðila vinnumarkaðarins. 

Hún taldi óheppilegt að Björn Valur skyldi koma fram í fjölmiðlum með slíkar tillögur áður en þær hafi verið ræddar innan stjórnarflokkanna.

Í fréttum Sjónvarpsins sagði Lilja að ríkisfjármálahópnum hafi einungis verið falið að koma með niðurskurð. Hún telur það ekki rétt við ríkjandi aðstæður. Lilja benti m.a. á að flýta mætti skattlagningu á séreignasparnaði til að lækka skatt á tekjulágum. Með því að taka strax skatt af inneign í séreignasjóðum og skattlagningu á séreignasparnað við inngreiðslu megi fá 80 milljarða króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert