12 milljónir til „Heimilis kvikmyndanna“

Borgarráð hefur samþykkt að veita hlutafélagi um rekstur svonefnds „Heimilis kvikmyndanna“ í Regnboganum 12 milljóna króna rekstrar- og framkvæmdastyrk.

Hagsmunafélag kvikmyndagerðarfólks og kvikmyndaunnendur stóðu að stofnun hlutafélags um rekstur Regnbogans eftir að hefðbundnum rekstri var hætt í húsinu. Ætlunin er að nýja kvikmyndahúsið sérhæfi sig í meðal annars í nýjum listrænum og eldri sígildum kvikmyndum auk þess sem áhersla verður lögð á starfsemi og fræðslu fyrir börn og unglinga. 

Jón Gnarr, borgarstjóri í Reykjavík, lýsti yfir ánægju sinni með framtakið og styrkinn. „Reksturinn í Regnboganum stuðlar ekki einungis að því að auka fjölbreytni kvikmynda í kvikmyndahúsum borgarinnar heldur glæðir menningu og mannlíf í borginni. Með því er unnið að einu af meginmarkmiðum Besta flokksins að gera borgina skemmtilegri,“ segir í tilkynningu frá skrifstofu borgarstjóra.

Með styrk Reykjavíkurborgar er stuðlað að því að koma á fót og gera starfsemina sjálfbæra í framtíðinni. Annars vegar er gert ráð fyrir að 6 milljónir renni til viðhalds á húsinu, meðal annars  á anddyri og framhlið. Hins vegar verði 6 milljónum varið til að renna stoðunum undir reksturinn fyrstu mánuðina. Stefnt er að því að hægt verði að hefjast handa við framkvæmdir 1. ágúst næstkomandi.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks voru andvígir styrkveitingunni og töldu eðlilegt „að fyrirliggjandi hugmyndir væru skoðaðar og þarfagreindar betur.“ Þeir töldu einnig að skoða ætti hvort slíka starfsemi mætti reka í samstarfi við þau kvikmyndahús og menningarstofnanir sem fyrir eru í borginni í stað þess að stofna sérstakt fjölsala kvikmyndahús fyrir hana.  

mbl.is

Bloggað um fréttina