Ætlar að krefjast rökstuðnings

mbl.is/Ómar

Ásta Sigrún Helgadóttir, forstöðumaður Ráðgjafarstofu heimilanna, ætlar að óska eftir rökstuðningi fyrir ráðningu umboðsmanns skuldara, en Ásta sótti um starfið. Hún efast um að faglega hafi verið staðið að ráðningunni.

„Ég ætla að óska eftir rökstuðningi fyrir ráðningunni og öllum gögnum sem málið varðar vegna þess að ákvörðunin byggir m.a. á hæfismati sem ég hef ekki séð. Þetta er fyrsta skrefið og síðan mun ég meta framhaldið þegar ég er komin með þessi gögn í hendur,“ sagði Ásta.

Níu sóttu um starfið og var Ásta og Runólfur Ágústsson lögfræðingur boðuð í viðtalið. Niðurstaða félagsmálaráðherra var síðan að ráða Runólf í starfið. Ráðuneytið mat Runólf hæfastan í starfið. 

Eitt af hæfisskilyrðum var að umboðsmaður skuldara hefði víðtæka þekkingu og reynslu af málefnum stofnunarinnar. „Ég hef verið starfandi forstöðumaður Ráðgjafastofunnar í sjö ár og hef þar að leiðandi mikla þekkingu á þessum málaflokki.“

Runólfur hefur starfað með Samfylkingunni, flokki félagsmálaráðherra. Ásta sagðist ekki vilja fullyrða að pólitík hefði skipt máli við ráðninguna. „Fólk verður bara að meta það sjálft.“

Fram kom í DV í gær að Sparisjóður Keflavíkur þyrfti að afskrifa um 500 milljónir vegna félags sem Runólfur stofnaði árið 2007 og átti fram að árslokum 2008. Ásta segist telja að þetta geti valdið umboðsmanni skuldara erfiðleikum.

„Ég þekki mjög vel hvernig er að vinna í þessum málaflokki. Við erum að vinna með einstaklingum sem eru oft í mjög erfiðum málum bæði fjárhagslega og félagslega. Mín persónulega skoðun er sú að það skipti máli að maður hafi sjálfur hreinan bakgrunn þannig að það sé ekki hægt að nýta einhver mál gegn manni. Ég tel því að þetta skaði trúverðugleika embættisins.“

Ásta sagði að það sé mikilvægt að það skapist traust á milli skjólstæðinga og starfsmanna stofnunarinnar.

Ásta Sigrún er lögfræðingur. Hún vann áður hjá fjölskyldudeild félagsþjónustunnar í Reykjavík og síðar í félagsmálaráðuneytinu, en hefur verið forstöðumaður Ráðgjafarstofu um fjármál heimilina frá árinu 2003.

Ásta Sigrún Helgadóttir forstöðumaður Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna.
Ásta Sigrún Helgadóttir forstöðumaður Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert