Hjólar fyrir krabbameinsrannsóknir

Alissa R. Vilmundardóttir hjólar hringinn í kringum landið á tíu …
Alissa R. Vilmundardóttir hjólar hringinn í kringum landið á tíu dögum til styrktar rannsóknastofu í krabbameinsfræðum. Ómar Óskarsson

Nú rétt í þessu lagði Alissa R. Vilmundaróttir af stað í hjólaferð í kringum landið. Hún er ekki ein um að hjóla hringinn þetta sumarið, en hennar ferð er sérstök að því leyti að ferðin er farin til styrktar Rannsóknastofu í krabbameinfræðum, undir kjörorðinu Okkar leið – allra málefni. Alissa lagði því upp frá Læknagarði, þar sem rannsóknastofan er til húsa. Verndari söfnunarinnar er Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands.

Alissa heldur fyrst um suðurland og fer hringinn því rangsælis. Markmiðið er að ljúka ferðinni á tíu dögum, en Alissa gefur sér fjóra aukadaga ef þess gerist þörf. Áfram verður þó hægt að styrkja málefnið eftir að ferðinni lýkur.

Rannsóknastofa í krabbameinsfræðum hefur fyrir löngu unnið sér sess í alþjóðlegum heimi krabbameinsfræða fyrir rannsóknir sínar og rannsóknarniðurstöður, að því er segir í tilkynningu frá átakinu, en forstöðukonur hennar eru Helga M. Ögmundsdóttir og Jórunn Erla Eyfjörð.

Alissa býður öllum að hjóla með sér síðustu kílómetrana til Reykjavíkur, þ.e. úr Mosfellsbæ að Læknagarði, í lok ferðar og vonast til að fjölmenni taki þátt á síðustu metrunum og sýni með því stuðning sinn við krabbameinsrannsóknir á Íslandi, og njóti léttra veitinga við ferðalok.

Símalína til styrktar málefninu er 904 -1339. Með því að hringja í símanúmerið leggjast sjálfkrafa 1.339 krónur á reikning verkefnisins. Þetta svarar til einnar krónu á hvern kílómetra sem hjólaður er.

Heimasíða átakins er www.facebook.com/Okkar.leid

Það verður sömuleiðis hægt að fylgjast með ferðinni í gegnum GPS staðsetningartæki á slóðina: www.depill.is/Okkar.leid

mbl.is