Seldu reynslulausum bröskurum bankana

Þingmenn ræða nú um skýrslu þingmannanefndar.
Þingmenn ræða nú um skýrslu þingmannanefndar. mbl.is/Árni Sæberg

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði á Alþingi í dag, að betur þurfi að gera varðandi rannsókn á einkavæðingu bankanna í byrjun aldarinnar en þegar hefur verið gert.

Steingrímur  sagði í umræðu um skýrslu þingmannanefndar um rannsóknarskýrslu Alþingis, að bæði sú skýrsla og skýrsla rannsóknarnefndarinnar staðfesti í meginatriðum mjög ámælisverð vinnubrögð varðandi einkavæðingu bankanna á sínum tíma. 

Hann sagði að mest stingi í augu að horfið var frá þeim markmiðum að bankarnir yrðu í dreifðu eignarhaldi og skipt hefði verið yfir í hugtakið kjölfestufjárfestir.

„Menn sögðu: við munum gera ríkar faglegar kröfur til þess hverjir geta verið eigendur banka. Þeir þurfa að hafa þekkingu og reynslu á því sviði og menn töluðu garnan í því samgjarnan  um kosti þess að fá með sem samstarfsaðila reynda erlenda banka. Hver var niðurstaðan? Menn gerðu hið gagnstæða. Menn seldu reynslulausum bröskurum tvo af þremur stærstu bönkum þjóðarinnar... með skelfilegum og dýrkeyptum afleiðingum," sagði Steingrímur.

Eftirlitsstofnanir fengu falleinkunn

Steingrímur sagðist styðja þá tillögu þingmannanefndarinnar að farið verði í stjórnsýsluúttekt á Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu.

„Og þó fyrr hefði verið.  Það er alveg ljóst að þegar maður les rannsóknarskýrsluna stóru, og aftur staðfest hér í þingmannanefndarskýrslunni, þá fá þessar tvær megineftirlitsstofnanir algera falleinkunn, því miður, fyrir frammistöðu sína á misserunum í aðdraganda hrunsins," sagði Steingrímur.

Hann sagði að þótt búið væri að skipta um yfirstjórnir í þessum stofnunum og að einhverju leyti að breyta lögum þá væru þetta enn sömu stofnanirnar með svipaða starfshætti. „Það væri stórfurðulegt ef ekki væri farið rækilega í saumana á því hvernig hægt er að bæta vinnubrögð og fyrirkomulag á þessu sviði," sagði Steingrímur.

Hann sagði, að af þessum tveimur stofnunum fengi Fjármálaeftirlitið  miklu harkalegri falleinkunn í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. „Það verður að segja eins og er að það stendur ekki steinn yfir steini í framgöngu Fjármálaeftirlitsins hvað varðar árin fyrir hrunið. Það er mitt mat og mín niðurstaða. Ég tel að sú stofnun... hafi allt fram í september 2008 verið meira og minna að flytja boðskap fjármálafyrirtækjanna í samskiptum við erlenda aðila sem hún átti að hafa eftirlit með," sagði Steingrímur.

mbl.is

Bloggað um fréttina