Mótmælabréf Jóns Gnarr til Kínverja

Bréfið sem Jón Gnarr afhenti aðalritara kommúnistaflokksins í Peking í …
Bréfið sem Jón Gnarr afhenti aðalritara kommúnistaflokksins í Peking í gær.

Borgarstjóri Reykjavíkur krefst þess að Liu Xiaobo verði „skilyrðislaust látin laus og að öllum þeim sem haldið er föngnum í Kínverska alþýðulýðveldinu fyrir að tjá skoðanir sínar með friðsömum hætti verði sleppt". Svo segir í bréfinu sem Jón Gnarr afhenti Liu Qi, framkvæmdastjóra kommúnistaflokksins í Peking og fyrrverandi borgarstjóra höfuðborgarinnar í gær.

Jón segist styðja baráttu PEN, alþjóðasamtaka ljóðskálda og rithöfunda, fyrir  tjáningarfrelsi og lausn Liu Xiaobo. Í bréfinu er handtaka Xiaobo rakin og sagt að hann hafi verið í haldi yfirvalda frá 8. desember 2008 fyrir þær sakir að vera meðal höfunda Charter 08 yfirlýsingarinnar, en í henni var krafist pólitísks frelsis í Kína. Gagnrýnt er í bréfinu að Xiaobo hafi verið haldið föngnum á leyndum stað án ákæru í hálft ár, fram til 23. júní 2009, þegar hann var fyrst formlega handtekinn og ákærður fyrir að reyna að grafa undan ríkisstjórninni.

„Liu Xiaobo er einn úr hópi fjölda andófsmanna sem hafa verið handteknir eða ofsóttir," segir í bréfinu frá Jóni til Liu Qi. Bendir hann á að tilefni 08-yfirlýsingarinnar hafi verið 60 ára afmæli Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og að í dag hafi yfir 8.500 fræðimenn, fjölmiðlamenn, rithöfundar og andófsmenn skrifað undir hana. Upphaflega skrifuðu 300 manns í Kína undir yfirlýsinguna og hefur mikill meirihluti þeirra verið fangelsaður eða orðið fyrir ofsóknum síðan að sögn PEN.

„PEN lítur svo á að Liu Xiaobo sé haldið föngnum fyrir það eitt að nýta með friðsömum hætti rétt sinn til frjálsrar tjáningar," segir í bréfi Jóns. Hann klykkir út með því að lýsa yfir stuðningi sínum við kröfur PEN um frelsi Xiaobo og annarra fanga í hans stöðu.  

Jón Gnarr borgarstjóri Reykjavíkur.
Jón Gnarr borgarstjóri Reykjavíkur. Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina