Mál höfðað gegn Geir

Frá atkvæðagreiðslunni á Alþingi í dag.
Frá atkvæðagreiðslunni á Alþingi í dag. mbl.is/Kristinn

Það var niðurstaða Alþingis, að höfða beri mál gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir landsdómi. Tillögur um að ákæra þrjá aðra fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Geirs voru hins vegar felldar.

Tillaga um að ákæra Geir var samþykkt með 33 atkvæðum gegn 30. Tillaga um að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra, var felld með 34 atkvæðum gegn 29. Tillaga um að ákæra Árna M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra,  var felld með 32 atkvæðum gegn 31 atkvæði. Þá var tillaga um Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, felld með 35 atkvæðum gegn 27 en einn þingmaður, Mörður Árnason, sat hjá.

Allir þingmenn Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs og Hreyfingarinnar greiddu atkvæði með tillögu um að höfða mál gegn Geir, 9 þingmenn Samfylkingar og 6 þingmenn Framsóknarflokks.

Allir 16 þingmenn Sjálfstæðisflokksins, 11 þingmenn Samfylkingarinnar og 3 þingmenn Framsóknarflokksins greiddu atkvæði gegn tillögunni.

Þegar kom að því að greiða atkvæði um hvort ákæra ætti Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, greiddu fjórir þingmenn Samfylkingarinnar, sem samþykktu málshöfðun gegn Geir, atkvæði á móti. Þetta voru Helgi Hjörvar, Ólína Þorvarðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Skúli Helgason. 

Þegar atkvæði voru greidd um hvort ákæra ætti Árna M. Mathiesen greiddu þær Ólína og Sigríður Ingibjörg atkvæði með tillögunni en Helgi og Skúli greiddu atkvæði gegn.  

Loks voru greidd atkvæði um hvort höfða ætti mál gegn Björgvin G. Sigurðssyni.  þrír þingmenn Samfylkingarinnar greiddu atkvæði með málshöfðun, Ólína Þorvarðardóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Jónína Rós Guðmundsdóttir en Mörður Árnason sat hjá.

mbl.is

Bloggað um fréttina