Yfir 10% heimila í vanskilum

10,1% heimila voru í vanskilum með húsnæðislán eða leigu
10,1% heimila voru í vanskilum með húsnæðislán eða leigu mbl.is/Golli

Lífskjararannsókn Hagstofu Íslands sýnir að 10,1% heimila voru í vanskilum með húsnæðislán eða leigu einhvern tíma síðastliðnu 12 mánuði samanborið við rúm 7% árið 2009 og 5,5% árið 2008.

Árið 2010 höfðu 13,3 íslenskra heimila verið með önnur lán en húsnæðislán eða leigu í vanskilum einhvern tíman á undanförnum 12 mánuðum. Árið 2009 var sambærileg tala 10,3% en 5,5% árið 2008. Nálega helmingur heimila átti erfitt með að ná endum saman á árinu.

36% geta ekki mætt óvæntum útgjöldum

16,5% heimila töldu húsnæðiskostnað þunga byrði og 19,2% töldu greiðslubyrði annarra lána en húsnæðislána eða leigu þunga. Tæp 36% heimila gátu ekki mætt óvæntum útgjöldum að upphæð 140 þúsund krónur eftir hefðbundnum leiðum. Þegar heildarmyndin er skoðuð var fjárhagsstaða heimilanna verri árið 2010 en næstu ár á undan.

Þegar horft er til heimilisgerðar kemur í ljós að einstæðir foreldrar áttu helst í fjárhagsvanda árið 2010. Barnlaus heimili þar sem fleiri en einn er fullorðinn stóðu best fjárhagslega. Heimili þar sem meðalaldur fullorðinna einstaklinga var 30-39 ár virtust eiga í mestum vanda þegar litið var til aldurs. Almennt má segja að því hærri sem meðalaldur fullorðinna einstaklinga er í heimili, því betur stendur það fjárhagslega.

Hagstofa Íslands hefur í dag gefið út Hagtíðindi þar sem nánar er fjallað um niðurstöður lífskjararannsóknarinnar. Rannsóknin er hluti af samræmdri lífskjararannsókn Evrópusambandsins. Heildarúrtak í rannsókninni var 4218 heimili. Að frádregnum látnum einstaklingum og þeim sem búsettir voru erlendis var úrtakið 3968 heimili. Svör fengust frá 3021 heimili en það er 76% svarhlutfall. Lífskjararannsóknin fór fram í mars, apríl og maí á þessu ári.

Fjárhagsstaða heimilanna 2004-2010

 

mbl.is