Segir samtalið eiga erindi við almenning

Höskuldur Þórhallsson á Alþingi.
Höskuldur Þórhallsson á Alþingi. mbl.is/Heiddi

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, vill að hluti af samtali Davíðs Oddssonar, þáverandi seðlabankastjóra og Mervyns Kings, bankastjóra Englandsbanka, um Icesave verði birtur opinberlega. Höskuldur gagnrýnir jafnframt formann fjárlaganefndar, sem kveðst ekki vilja leggja áherslu á að samtalið verði birt.

Oddný G. Harðardóttir, formaður Fjárlaganefndar, segir í Morgunblaðinu í dag að innihald samtalsins hefði ekki komið á óvart og hún segist ekki leggja áherslu á að samtalið yrði birt opinberlega. Í Fréttablaðinu í dag segir hún, að samskipti Davíðs og Kings breyti engu um stöðu Icesave-málsins.

„Ég er að mótmæla þeim orðum Oddnýjar Harðardóttur í fjölmiðlum að samtalið skipti engu máli um stöðu Icesave-málsins. Ég er því ósammála,“ segir Höskuldur í samtali við mbl.is.

„Ég tel að það sé mjög mikilvægt að fá trúnaði aflétt af hluta samtalsins,“ segir hann. Samtalið eigi erindi við almenning, sem verði að fá tækifæri til að meta sjálfur hvað hafi farið á milli Davíðs og Kings.  „Ég tel að þær upplýsingar sem koma fram í samtalinu geti gjörbreytt viðhorfi fólks um það hvort við eigum að borga Icesave eða ekki,“ segir Höskuldur.

Höskuldur hyggst senda formanni og varaformanni fjárlaganefndar bréf vegna málsins til að koma gagnrýni og athugasemdum á framfæri.

Þingmenn í fjárlaganefnd fengu á fundi nefndarinnar í gærkvöldi að sjá endurrit af samtali Davíðs og Kings frá aðdraganda bankahrunsins. Nýjasta Icesave-samkomulagið er þessa dagana til umræðu í fjárlaganefnd og var samtalið birt í tengslum við það. Davíð lét þau ummæli falla nýverið að í samtalinu hefði King sagt að Englandsbanki myndi ekki gera þá kröfu að Íslendingar endurgreiddu innistæður á Icesave-reikningum. 

„Ég gekk út frá því í lok fundarins að það yrði reynt að fá trúnaði aflétt af hluta samtalsins. Það var niðurstaða fundarins,“ segir Höskuldur sem furðar sig á orðum Oddnýjar. Hann undrast einnig á að hún hafi ákveðið að tjá sig um innihald samtalsins við fjölmiðla með ofangreindum hætti. Ummælin hafi verið mjög gildishlaðin.

Í lok fundarins hafi verið augljóst að skoðanir nefndarmanna hafi verið skiptar. Hluti fjárlaganefndar hafi óskað eftir því að trúnaði yrði aflétt. „Ég gekk út frá því að það yrði reynt.“

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG og varaformaður fjárlaganefndar, segir á vef sínum í dag, að miðað við þau gögn sem fyrir liggi og miðað við sögu og stöðu þeirra tveggja sem þarna töluðu saman í síma, til viðbótar skilningi annarra á umræddu símtali, myndi hann fara varlega í að túlka samtalið með þeim hætti Davíð hafi gert. 

mbl.is

Bloggað um fréttina