Hefur ekki tekið afstöðu

Pétur H. Blöndal.
Pétur H. Blöndal. mbl.is

Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur ekki gert upp við sig hvort hann muni styðja Icesave-frumvarpið. Pétur segir að vega þurfi og meta líkurnar á ýmsum afleiðingum þess að samþykkja eða hafna samkomulagsdrögunum.
 
„Þetta er allt önnur staða en áður var vegna þess að þessi samningur er miklu betri en fyrri samningar, aðstæður hafa batnað, óvissa hefur breyst í vissu og líkur á miklum áhættum er minni og viðráðanlegri. En við eigum líka kost á að segja nei og láta málið fara fyrir dóm,“ segir Pétur. 

„Við þurfum í rauninni að meta bæði kosti og galla við hvora ákvörðun. Að segja já eða segja nei. Valið er því erfiðara en áður. Við stöndum frammi fyrir því að ef við samþykkjum samkomulagið þá eru ákveðnar líkur á áföllum, jafnvel miklum áföllum en það eru líka ákveðnar líkur á að allt gangi vel og við borgum lítið sem ekki neitt.“ segir hann.

„Svo hefur verið bent á góðar afleiðingar þess að segja já, betra lánshæfismat, vinsemd erlendra þjóða og jafnvel að lánamöguleikar opnist og atvinnuleysi minnki. Ég tel þetta reyndar vera óskhyggju og villuljós. Ef við segjum nei, stöndum við frammi fyrir málaferlum sem við getum unnið eða tapað. Ef við vinnum borgum við ekki neitt og á því eru nokkrar líkur, reyndar óþekktar. Ef við töpum lendum við í mjög erfiðum málum en það tjón hefur ekki verið kannað eða metið í hörgul. Á því eru ákveðnar líkur sem engin þekkir.

Sumir horfa of mikið á áhættuna en minna á þá stöðu að við vinnum. Það er svona eins og menn hættu að keyra bíl vegna þess að sannanlega deyja nokkrir í umferðinni. En fólk keyrir samt. Menn mættu líka velta fyrir sér hvaða afleiðingar það hefur fyrir traust sparifjáreigenda á bankakerfið í Evrópu sama hvernig fer, hvort sem við vinnum eða töpum. Það kann því að vera lítill áhugi á málaferlum hjá ESB. Svo má ekki gleyma því að flestir telja að við eigum ekki að greiða og hví ættum við þá að greiða? Hins vegar tel ég að menn eigi ekki hamra á réttinum ef það getur valdið manni tjóni. Það má ekki kosta of mikið eða valda of miklu tjóni að standa á rétti sínum,“ segir Pétur.
 
„Ég óskaði eftir því fyrir áramót að fengið yrði líkindamat á málið, þ.e.a.s. að metið yrði líkindafræðilega hvað miklar líkur væru á að við lentum í áföllum á hvorn vegin sem er, já eða nei. Það  fékkst nú ekki enda er erfitt að meta þessar líkur.“
 
Pétur segir að umræðan á Alþingi hafi verið málefnaleg og ýmislegt nýtt
komið fram og bæði kostirnir og gallarnir hafi orðið skýrari í þeirri
umræðu. Frumvarpinu verði svo aftur vísað til nefndar eftir 2. umræðu og
segist hann vona að þá verði hægt að skoða líkurnar á mismunandi
afleiðingum, kostum og göllum þess að hafna eða samþykkja
samkomulagsdrögin.

„Svo spyr maður sig hvað liggur á? Það er reiknað með fyrstu greiðslunni 15. júlí. Af hverjum bíðum við ekki þangað til?“ segir hann.
 
Önnur umræða um Icesave-frumvarpið stóð yfir fram kvöldi á Alþingi og lauk skömmu fyrir miðnætti. Verður henni haldið áfram á morgun.
 
 

Langar umræður Önnur umræða um Icesave-frumvarpið hófst á Alþingi í …
Langar umræður Önnur umræða um Icesave-frumvarpið hófst á Alþingi í dag og stóð yfir langt fram eftir kvöldi. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert