Óveðrið nær hámarki

Upplýsingaskiltið við Mosfellsbæ sýnir vel rokið á Vesturlandsveginum í kvöld.
Upplýsingaskiltið við Mosfellsbæ sýnir vel rokið á Vesturlandsveginum í kvöld. mbl.is/Júlíus

Enn er óveður á flestum vegum sunnan- og vestanlands, eins og undir Hafnarfjalli og á Reykjanesbraut og Kjalarnesi. Búið er að opna Hellisheiði, Þrengslin og Sandskeiði en þar er hálka og óveður. Meðalvindhraði í Stórhöfða í Eyjum fór upp í 47,5 m/sek um sexleytið í kvöld en um áttaleytið var vindhraðinn kominn niður í 38,5 m/sek að jafnaði.

Á Suðurlandi er hálka og óveður undir Eyjafjöllum og ekkert ferðaveður, segir í nýrri tilkynningu Vegagerðarinnar. Hálka og skafrenningur er í kringum Hellu. Víða er snjóþekja, hálka eða jafnvel þæfingsfærð í uppsveitum.

Á Vesturlandi er hálkublettir og óveður undir Akrafjalli og á Holtavörðuheiði einnig er óveður undir Hafnafjalli og þar er ekkert ferðaveður. Á öðrum leiðum er hálka eða hálkublettir. Eins og sést á meðfylgjandi mynd eru vindhviður nú undir Hafnarfjalli allt upp undir 42 metra á sekúndu og 36 metrar á sekúndu á Kjalarnesi.

Á Vestfjörðum er víða hálka,hálkublettir og skafrenningur. Þungfært er um Kleifaheiði og Klettsháls. Á Norðurlandi er hálka eða hálkublettir. Á Austur- og Suðausturlandi er snjóþekja, hálka og einhver skafrenningur.

Gera má ráð fyrir að veðrið suðvestanlands sé í hámarki til kl 22 í kvöld og eftir það hlýnar nokkuð og dregur smámsaman úr vindinum.  Um landið norðan og austanvert er vindur ört vaxandi af austri og suðaustri í kvöld, víða skafrenningur og blint þar sem lausamjöll er yfir.  Snjókoma verður í nótt, en slydda síðar meir  á láglendi.  Veðurhæð norðan- og austanlands nær hámarki seint í nótt eða snemma í fyrramálið.

mbl.is

Bloggað um fréttina