57,7% myndu samþykkja Icesave

Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti ákvörðun sína um að synja lögunum …
Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti ákvörðun sína um að synja lögunum staðfestingar á blaðamannafundi á Bessastöðum. mbl.is/Golli

Tæp 58% myndu samþykkja Icesave-samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt nýrri könnun MMR. Þá sögðust 60,7% styðja ákvörðun forseta Íslands um að vísa málinu til þjóðaratkvæðis.

Af þeim sem tóku afstöðu voru 60,7% sem sögðust styðja ákvörðun forseta Íslands um að staðfesta ekki nýjustu Icesave lögin og vísa þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá sögðust 57,7% þeirra, sem tóku afstöðu,  myndu kjósa með lögunum kæmu þau til atkvæðagreiðslu í dag, það er að samþykkja lögin.

Áberandi andstaða var við ákvörðun forsetans um að staðfesta ekki nýju Icesave lögin meðal stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar, en 74,3% þeirra kváðust ekki styðja ákvörðun forsetans. Á hinn bóginn sögðust 76,5% þeirra, sem sögðust ríkisstjórninni andvígir, styðja ákvörðun forsetans.

Ef horft er til afstöðu til komandi Icesave kosninga eftir stuðningi við stjórnmálaflokka má sjá að helmingur sjálfstæðismanna (49,9%) hyggst kjósa með Icesave lögunum samanborið við 37,4% framsóknarmanna, 83,1% vinstri-grænna og 96,7% samfylkingarfólks.

mbl.is