Fjármögnunarleigusamningur ólöglegur

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Reykjavíkur komst í dag að þeirri niðurstöðu að fjármögnunarleigusamningur sem Íslandsbanki hafði gert við fyrirtæki væri ólöglegur. Gera má ráð fyrir að dómnum verði áfrýjað til Hæstaréttar.

Í dómnum segir að ekki verði séð að fjármögnunarleigan hafi komið að kaupum á vélinni sem lánað var fyrir að öðru leyti en því að hann hafi verið skráður kaupandi til tryggingar á efndum á lánssamningi.

Dómarinn taldi að bankinn hafi í raun veitt fyrirtækinu lán til kaupa á vél þeirri sem samningur aðila tók til og hafi samningurinn því ekki verið raunverulegur leigusamningur heldur lánssamningur „sem sóknaraðili kaus í orði kveðnu að klæða í búning leigusamnings,“ eins og segir í dómnum. Dómarinn bendir á að bankinn færði ekki umrædda vél sem eign í bókhaldi sínu heldur færði hann kröfuna samkvæmt samningi aðila til eignar og voru tekjur af samningum vegna fjármögnunarleigu færðar sem vaxtatekjur en ekki leigutekjur.

Dómarinn bendir á að með setningu laga um vexti og verðtryggingu frá árinu 2001 hafi heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla verið felldar niður. Bankinn hafi í málatilbúnaði sínum haldið því fram að sú niðurstaða sé í andstöðu við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum um frelsi til fjármagnsflutninga, en dómarinn hafnar þessu og telur þetta alls ófullnægjandi rök.

„Þessi niðurstaða er gríðarlega mikilvæg fyrir þau fjölmörgu fyrirtæki sem fjármögnuðu tæki og tól með þessum samningum. Eiginfjárstaða margra mun batna og reksturinn verður léttari. Samtök iðnaðarins fagna dómnum en samtökin lögðu fram lögfræðiaðstoð við undirbúning málsins,“ segir í fréttatilkynningu Samtaka iðnaðarins um dóminn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert