Aflífa á tík sem beit konu

Rottweiler hundur. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Rottweiler hundur. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Úrskurðarnefnd samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir hefur hafnað kröfu eiganda Rottweilertíkurinnar Chrystel um frestun á aflífun tíkurinnar.

Iíkin sem um ræðir beit konu í Hveragerði til blóðs þann 4. mars 2011. Hundurinn var þá óskráður og leyfislaus. Atvikið var tilkynnt lögreglu og tók sýslumaðurinn á Selfossi ákförðun um að aflífa skyldi hundinn. 

Það var gert að gefnu áliti héraðsdýralæknis sem taldi að samkvæmt skapgerðarmati kynni hundurinn að bíta aftur. Hundurinn var fluttur í vistun af hálfu yfirvalda 4. mars sl. en fjarlægður þaðan án leyfis 3. maí sl. 

Eigandi hundsins lagði fram stjórnsýslukæru 21. mars sl. vegna ákvörðunar sýslumannsins um aflífun hundsins. Þann 7. apríl lagði eigandinn svo fram kröfu  um að aflífun hundsins skyldi frestað.

Úrskurðarnefndin segir það liggja fyrir að hundurinn hafi verið numinn á brott úr þeirri vistun sem yfirvöld settu hann í. Nefndin segir að þar með hafi ekki tekist að fyrirbyggja þá hættu sem kunni að stafa af hundinum og því sér hún sér ekki fært að taka ákvörðun um að fresta því að aflífa skuli rottweilertíkina Chrystel. Beiðni eiganda tíkurinnar var því hafnað.

„Við munum leita eftir því við lögreglu alls staðar á landinu að hún fylgist með. Væntanlega beita okkur fyrir því líka að dýralæknar fylgist með líka,“ sagði Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, aðspurður um hvort tíkurinnar yrði leitað.

Hann sagði að ákveðnar vísbendingar um að eigandi tíkurinnar hafi hana undir höndum. Lögmaður eigandans hafi lýst því yfir að tíkin væri hjá eiganda sínum á Akureyri. Ólafur sagði þó ekki vitað hvar tíkin er núna.

„Það er ljóst að hver sem hefur tíkina í dag heldur henni ólöglega fyrir yfirvöldum,“ sagði Ólafur. „Það má ekki gleyma því að þetta er hundur sem hefur bitið, rottweilerhundur, og það er álit dýralækna að það séu allar líkur á að þessi hundur muni bíta aftur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert