Gjóskan er fínkorna

Iwona Galeczka, vísindamaður hjá Jarðvísindastofnun Háskólans, og Birgir Jóhannesson, vísindamaður …
Iwona Galeczka, vísindamaður hjá Jarðvísindastofnun Háskólans, og Birgir Jóhannesson, vísindamaður hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, tóku myndina í rafeindasmásjánni á Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Sýnið er frá Kirkjubæjarklaustri og tekið á sunnudag kl 17:30. Græna stikan undir myndinni sýnir 10 míkrómetra en heilsuverndarmörk svifryks eru miðuð við þá stærð.

„Gjóskan er fínkorna. Við höfum safnað gjósku alveg frá Skálm á Mýrdalssandi og fram á Skeiðará á Skeiðarársandi. Sýnin sýna að gjóskan er fínkorna, þó ekki eins fín og Eyjafjallajökulsgjóskan,“ segir Sigurður Reynir Gíslason, jarðefnafræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskólans. 

„Að meðaltali eru 50-60% af massa gjóskunnar minna en 60 míkrómetrar í þvermál. Við skilgreinum gjósku sem er fyrir neðan þau mörk sem fína gjósku. Hún er létt og getur haldist á lofti dögum saman. Heilsufarsmörkin eru miðuð við 10 míkrómetra. Hlutfall fínnar ösku er breytilegt eftir sýnum en er frá 5 til 10%. Í Eyjafjallagjóskunni var hlutfallið hins vegar yfir 20%,“ segir Sigurður Reynir Gíslason, jarðefnafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskólans, um niðurstöður rannsókna á gjóskunni frá Grímsvatnagosinu.

70% af heildarmassa gjóskunnar

„Þetta eru í senn flug- og heilsufarsmörk. Gjóska sem er stærri og upp að 60 míkrómetrum getur einnig haldist lengi í lofti. Í fínustu gjóskunni sem við fundum frá Eyjafjallajökli á Mýrdalssandi 15. apríl í fyrra var gjóska sem var undir 60 míkrómetra mörkunum 70% af heildarmassa gjóskunnar. Nú benda rannsóknir til að frá 50-67% af heildarmassa gjóskunnar sem við erum að finna á Mýrdalssandi og yfir á Skeiðarársand sé undir 60 míkrómetrum.

Við höfum hins vegar ekki náð sýnum úr allra fínustu gjóskunni sem fór í 20 km hæð. Gervihnattamyndir sýna að þessi gjóska hefur tekið flugið. Þótt hún sé grófari en gjóskan frá Eyjafjallajökli er hún ekki gróf. Það er mikið af fínni ösku í þessum sýnum.

Gjóskan er að mestu basaltgler, lítið er af kristöllum. Þessi gjóska bráðnar þegar hún fer inn í flugvélahreyfla og storknar síðan í kaldari hluta hreyflanna og getur þar með drepið á þeim. Agnirnar eru skarpar og geta þar af leiðandi mattað og sandblásið glugga, til dæmis á flugvélum, ef þær fljúga inn í gjóskuna. Gjóska af þessari kornastærð getur verið á flugi í nokkra daga ef vindar eru óhagstæðir.

Það er meira en helmingi minna af fínu efni fyrir neðan 10 míkrómetra en í Eyjafjallagjóskunni. Þannig að gjóskan nú er ekki eins hættuleg við innöndun. Það er hins vegar full ástæða til að vera á varðbergi og nota grímur. Agnirnar eru smáar og skarpar eins og sjá má á myndunum. Það er engin spurning að nota ber grímur hvort sem það er inni í bíl eða utandyra þar sem gjóska er í lofti. Hjálparsveitirnar eru með góðar grímur sem má nálgast hjá þeim."

Fer eftir veðri og vindum

– Hversu lengi verður gjóskan í andrúmsloftinu?

„Það fer eftir veðri og vindum. Staðan breytist um leið og það rignir. Rigning er það sem við viljum fá til að koma gjóskunni til jarðar. Við viljum jafnvel fá snjókomu því snjór er um það bil 50 sinnum öflugri við að koma svona rykkornum til jarðar en rigning. Því er spáð að í lok vikunnar rigni. Það er auðvitað það sem viljum."

Þá vísar Sigurður Reynir til framhalds á rannsóknum Níels Óskarssonar, jarðefnafræðings á Jarðvísindastofnun háskólans, á flúor og öðrum hættulegum efnum á yfirborði gjóskunnar sem gerð var á sunnudag. „Þegar gjóskan kemur upp úr eldstöðinni er hún þúsund gráðu heit neðst í mekkinum en frostið er um 50 gráður efst í mekkinum. Þá þéttast gastegundir á yfirborði gjóskunnar og mynda örþunna húð sem er minna en 10 nanómetrar á þykkt.

Um leið og gjóskan kemst í snertingu við vatn leysist þessi salthúð upp. Í henni geta verið mengandi efni eins og flúor, brennisteinn og jafnvel arsen. Fyrstu mælingarnar sem Níels gerði benda til þess að hlutfall mengandi efna sé lágt. Niðurstöður frá gosinu í Eyjafjallajökli, í Gjálp og gosinu nú benda til að stærstur hluti óæskilegra efna þvoist af skömmu eftir að þau þeytast í andrúmsloftið og fari í bráðvatnið í jöklinum og gufurnar þar.

Þetta er öðruvísi en til dæmis í gosum í Heklu þar sem ekki er mikið vatn í kringum gosmökkinn. Í þeim tilvikum er gosmökkurinn mjög mengaður, mikið flúor og miklar sýrur. Fyrstu mælingar benda til þess að í þessu tilviki sé mengunin ekki mikil. Það byggir hins vegar aðeins á einu sýni og munum verið gera fleiri mælingar til að skera úr um þetta. Ef vatn hins vegar hættir að flæða að þessu getur orðið meiri mengun seinna á yfirborði gjóskunnar. Það á allt eftir að koma í ljós."

Nokkrar vikur munu líða

Sigurður Reynir telur að nokkrar vikur muni taka að hreinsa mengun úr lífríki nærumhverfis gossins.

„Það losnar mikið af þessum söltum á yfirborði gjóskunnar í þessu fyrstu rigningum. Þetta tekur viku eða vikur að skolast út. Það fer allt eftir því hvað úrkoman er mikil. Þetta eru góðar fréttir. Gjóskan sem kom fyrst upp í Eyjafjallajökulsgosinu var tiltölulega hrein.

Síðan seinna í gosinu, þegar hún var búin að vinna sig upp úr vatninu, var töluverð mengun á henni. Þá kom það til að eldri gjóskan sem hún féll á virkaði eins og einskonar varnarlag. Eldri gjóskan gat hlutleyst mengunina sem var að koma í gegn. Þess vegna kom þetta á margan hátt svo vel út hjá Eyfellingum.“

Dr. Sigurður Reynir Gíslason safnar saman gjósku við Laufskálavörðu skömmu …
Dr. Sigurður Reynir Gíslason safnar saman gjósku við Laufskálavörðu skömmu eftir að gos hófst í Eyjafjallajökli í fyrra. Ómar Óskarsson
mbl.is