Þingmenn slepptu blöðrum

Þingmenn slepptu rauðum blöðrum við Austurvöll í dag, í tilefni …
Þingmenn slepptu rauðum blöðrum við Austurvöll í dag, í tilefni Dags barnsins. mbl.is/Eggert

Víða um land var haldið upp á alþjóðlegan Dag barnsins hér á landi í dag. Af því tilefni slepptu þingmenn rauðum blöðrum við Austurvöll, til að minnast barna um allan heim sem eiga um sárt að binda. Barnaheill á Íslandi stóð fyrir ýmsum uppákomum af þessu tilefni, í samstarfi við fleiri aðila.

Þannig tóku fjölmargir leikskólar á höfuðborgarsvæðinu þátt í uppákomunum. Börn á leikskólum í Seljahverfi hittust við tjörn í hverfinu til að minnast barna sem eiga um sárt að binda og á leikskólanum Furuborg ætluðu nemendur t.a.m. að hengja rauðar blöðrur á tré á skólalóðinni og tileinka það börnum á gossvæðinu sem ekki geta leikið sér úti. 

Á Barnaspítala Hringsins og heilsugæslustöðvum víða um land fengu öll börn sem þangað koma rauða blöðru að gjöf auk þess sem Gerður Kristný, rithöfundur og skáld, heimsótti börn á Barnaspítala Hringsins og las fyrir þau.

Börn háskólanema og Stúdentaráð Háskóla Íslands tóku einnig höndum saman og komu í sameiningu fyrir 69 risablöðrum á lóð leikskólans Mánagarðs til að minna á að enn eru 69 milljónir barna í heiminum sem ekki njóta þessara mannréttinda sem þeim eru þó tryggð í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Nánari upplýsingar um Dag barnsins er að finna á vef Barnaheilla.

mbl.is

Bloggað um fréttina