Standi ekki við loforð um hjólreiðastíga

mbl.is/Ómar

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík segja að meirihlutinn í borginni, Besti flokkurinn og Samfylkingin, ætli aðeins að leggja 16% þeirra hjólastíga sem ákveðið hafði verið að leggja á árinu 2011.

Sjálfstæðismenn segja að samkvæmt aðgerðaáætlun um lagningu hjólreiðastíga, sem allir flokkar hafi samþykkt í maí í fyrra, hafi átt að leggja 10 kílómetra af hjólastígum á ári 2011, 2012 og 2013. Talað hafi verið um stórátak og allir flokkar hafi fagnað framtakinu. 

Aðgerðaáætlunin byggðist á hjólreiðaáætlun Reykjavíkur sem nefnist Hjólaborgin Reykjavík og var samþykkt í borgarstjórn í janúar árið 2010.

Gísli Marteinn Baldursson og Hildur Sverrisdóttir, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, segja að kúvending hafi orðið á stefnu borgarinnar í uppbyggingu Reykjavíkur sem hjólaborgar. 

Þetta kemur fram í bókun á loknum fundi umhverfis- og samgönguráðs í gær. 

mbl.is

Bloggað um fréttina