Yfir 60% óánægð með launin

Samkvæmt niðurstöðum launakönnunar SFR stéttarfélags eru yfir 60% félagsmanna óánægð með laun sín. Ennfremur er staða opinberra starfsmanna lakari samkvæmt niðurstöðunum en þeirra sem starfa í einkageiranum. Laun þeirra hafa hækkað minna og fjárhagsleg staða heimila þeirra er verri. Þá hefur launamunur kynjanna aukist. Könnunin var unnin í febrúar af Capacent.

Launakönnunin í ár leiðir í ljós að þeim fjölgar á meðal félagamanna SFR sem þurfa að nota sparifé sitt til þess að ná endum saman miðað við könnunina á síðasta ári. Rúmlega þriðjungur heimila þeirra gengur á sparifé eða safnar skuldum. „Verst er staða fólks á aldrinum 35-44 ára en þar er hlutfall þeirra sem safna skuldum hæst. Fjárhagur heimilisins tengist einnig skýrt launakjörum þannig að því lægri sem launin eru, því fleiri ganga á sparifé sitt og/eða safna skuldum.“

Fram kemur að launamunur kynjanna hafi minnkað samkvæmt launakönnuninni í fyrra og þá mælst 9,2% miðað við 11,8% á árinu 2009. Í ár hafi hann hins vegar aukist á ný og mælist nú 13,2%.

Þá er óánægja félagsmanna SFR með laun sín áfram útbreidd. „Niðurstöður könnunarinnar sýna að nú þrjú ár í röð hefur óánægja félagsmanna SFR með laun sín aukist og mælist nú yfir 60%. Enda sýna niðurstöður að heildarlaun félagsmanna SFR hækka einungis um 1% á milli ára,“ segir í niðurstöðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert