Segja SFF þjófkenna þjóðina

FÍB segir SFF saka stóran hluta þjóðarinnar um tryggingasvik.
FÍB segir SFF saka stóran hluta þjóðarinnar um tryggingasvik. mbl.is

Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) gagnrýnir harðlega viðhorfskönnun Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) um tryggingasvik þar sem kemur fram að 14% aðspurðra „þekkja einhvern“ sem fékk tryggingabætur sem hann átti ekki rétt á síðustu 12 mánuðina. FÍB segir SFF enn eina ferðina lögð í herferð til að saka stóran hluta þjóðarinnar um tryggingasvik.

SFF fullyrða jafnframt að miðað við reynslu erlendis séu um 10% greiddra tryggingabóta hér á landi sviknar út. „Þetta fullyrða Samtök fjármálafyrirtækja þrátt fyrir að á ráðstefnu þeirra um tryggingasvik hinn 15. september síðastliðinn hafi komið fram að í fyrra hafi aðeins verið ákært hér á landi í fimm tilfellum vegna tryggingasvika. [...] Vafalítið er töluvert um tryggingasvik sem ekki komast upp. En hvað hafa SFF fyrir sér um að 10% af öllum bótakröfum séu tilraun til svika? Eini rökstuðningur þess efnis er að svona sé þetta „erlendis“. Þegar hins vegar erlendu upplýsingarnar á ráðstefnu SFF eru skoðaðar, þá er ekkert sem rökstyður þetta," segir í úttekt FÍB um málið.

„Þetta eru viðbrögð okkar við þessum fundi Samtaka fjármálafyrirtækja og þessari niðurstöðu sem mátti lesa m.a í fjölmiðlum í kjölfarið sem byggðist ekki á neinum vísindalegum gögnum, bara einhverjum hókus pókus vísindum," segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB.

„Skoðanakönnunin segir í sjálfu sér voðalega lítið. Við gætum örugglega farið í skoðanakönnun og spurt almenning hvort hann þekkti til einhvers sem hefði framið skattalagabrot og ég hugsa að við gætum fengið 99% svörun en það þýðir ekki að 99% þjóðarinnar séu skattsvikarar. Með úttekt okkar á átaki SFF erum við að vara við því að það sé verið að halda einhverju svona á lofti. Við gerum eins og aðrir í samfélaginu þær kröfur til svona virðulegra samtaka að það séu viðhöfð vandaðri vinnubrögð en ekki verið að hrópa úlfur úlfur án þess að hafa almennileg rök fyrir því," segir Runólfur.

Í úttekt FÍB segir að það virðist vera full ástæða til að Fjármálaeftirlitið taki þessi vinnubrögð Samtaka fjármálafyrirtækja til athugunar. „Ég geri ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið muni skoða þetta. Þar er sérstakt vátryggingasvið og það fór eintak af úttekt okkar þangað eins og annað," segir Runólfur.

Úttekt FÍB

mbl.is

Bloggað um fréttina