Rannsóknir sýna að áfengisneysla ungmenna eykst mjög mikið frá því nemendur stunda nám í 10. bekk grunnskóla þar til þeir hefja nám í efstu bekkjum framhaldsskóla. Þess vegna munu framhaldsskólarnir í ár taka þátt í forvarnardeginum sem haldinn verður á miðvikudaginn.
Þegar spurt er um ölvun undanfarna 30 daga fer hlutfall þeirra sem segjast hafa drukkið úr 9% hjá þeim sem eru í 10. bekk í 43% hjá 16 til 17 ára nemendum í framhaldsskóla. Hlutfall þeirra sem hafa prófað hass hækkar úr 3% í 7% og þeirra sem hafa prófað maríjúana úr 8% í 12%. Hlutfall þeirra sem reykja fer úr 5% í 9%.
Af þessu tilefni verður sú nýbreytni tekin upp að framhaldsskólar taka þátt í forvarnardeginum í ár. Verður efnt til funda í framhaldsskólum og fjallað um þessi efni.