Alltaf má fá annað föruneyti

Leiðtogar ríkisstjórnarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Leiðtogar ríkisstjórnarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.

„Ríkisstjórnin hefur sjaldan staðið veikar en einmitt núna,“ segir Birgir Guðmundsson stjórnmálafræðingur og dósent við Háskólann á Akureyri. Hann telur væringar milli stjórnarflokkanna fordæmalitlar og nú reyni á lagni forystumanna ríkisstjórnarinnar að lempa mál.

Á föstudag ákvað Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra að synja ósk Kínverjans Huang Nubo um kaup á Grímsstöðum á Fjöllum og á laugardag voru birtar á vef sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins punktar starfshóps á vegum Jóns Bjarnasonar ráðherra um breytingar á kvótakerfinu. Sú framsetning mælast illa fyrir en þó ekki síður framganga ráðherrans sjálfs, sem þykir ekki vera í samræmi við markaða stefnu ríkisstjórnarinnar.

„Í stjórnmálum er þekkt að menn spila oft frítt á síðari hluta kjörtímabils eða þegar kosningar nálgast. Atburðarás helgarinnar ber svip af þessu; menn reyna eftir megni að skapa sér sérstöðu,“ segir Birgir sem telur ósennilegt að væringarnar nú leiði til stjórnarslita á allra næstu dögum. Hitt sé þó ljóst að veruleg þreyta sé komin í samstarf ríkisstjórnarflokkanna og mál geti því þróast á ýmsa vegu. Báðir stjórnarflokkarnir hljóti því að hugsa í anda þess sem skáldið kvað, að alltaf megi fá annað skip og annað föruneyti.

Birgir Guðmundsson.
Birgir Guðmundsson. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert