Icesave á hendi Össurar

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra. mbl.is/Ómar

Fjórir þingmenn meirihlutans í utanríkismálanefnd auk áheyrnarfulltrúa telja rétt og í samræmi við stjórnskipunina að formlegt fyrirsvar málareksturs gagnvart EFTA-dómstólnum sé á hendi utanríkisráðherra.

Þetta kemur fram í annarri bókun sem var lögð fram á fundi utanríkismálanefndar í kvöld, en að henni standa þingmennirnir Árni Þór Sigurðsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Mörður Árnason, Helgi Hjörvar og Birgitta Jónsdóttir, sem er áheyrnarfulltrúi í nefndinni.

Bókunin er svohljóðandi:

„Undirrituð fulltrúar í utanríkismálanefnd telja rétt og í samræmi við stjórnskipunina að hið formlega fyrirsvar vegna málareksturs gagnvart EFTA-dómstólnum sá [sic] á hendi utanríkisráðherra. Mikilvægt er að samráð milli þeirra ráðuneyta sem málið varðar verði náið og sömuleiðis samráð við utanríkismálanefnd. Jafnframt verði lögð áhersla á að utanríkisráðherra og efnahags- og viðskiptaráðherra komi fyrir nefndina til að fjalla um málsmeðferð og málsvörn Íslands.“

Meirihlutinn vill Árna Pál

Tekið skal fram að níu þingmenn eiga sæti í nefndinni. Fram hefur komið að meirihluti nefndarmanna, fimm fulltrúar af níu, leggi hins vegar áherslu á að Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, fari áfram með fyrirsvar Icesavemálsins gagnvart ESA og EFTA dómstólnum.

„Minnihluti nefndarinnar, fjórir fulltrúar, lögðu fram aðra bókun.  Ríkisstjórn Íslands hlýtur að taka tillit til vilja meirihluta utanríkismálanefnar.

Birgitta Jónsdóttir er áheyrnarfulltrúi á fundum nefndarinnar og getur því ekki staðið að afgreiðslum nefndarinnar,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sem er á meðal þeirra fimm þingmanna sem vilja að málið verði enn í höndum Árna Páls.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert