Færðu vökudeild gjafir

Steinunn Viktorsdóttir ásamt fjölskyldu
Steinunn Viktorsdóttir ásamt fjölskyldu

Steinunn Viktorsdóttir heimsótti vökudeild Barnaspítala Hringsins í desembermánuði sl. ásamt foreldrum sínum, Viktori Kr. Helgasyni og Önnu Sigríði Þráinsdóttur, en með í för voru ömmur og afar Steinunnar.

Tilgangur heimsóknarinnar var einkum sá að færa deildinni gjafir en Steinunn, sem nú er tvítug, fæddist sjálf fyrir tímann og dvaldi því tímabundið á vökudeild Barnaspítala Hringsins.

Vökudeildin fékk að gjöf peysur, húfur, sokka og teppi sem amma Steinunnar hannaði og bjó til en einnig færðu þau deildinni peningagjöf. Segir m.a. í tilkynningu frá Barnaspítala Hringsins að gjafirnar eigi eftir að nýtast vel í mæðraherberginu en það er séraðstaða sem nýlega var komið upp.

Þar geta nýbakaðar mæður farið afsíðis og mjólkað sig í friði og ró en einnig geta starfsmenn deildarinnar sest niður með þeim og veitt fræðslu og leiðbeiningar um brjóstagjöf og tengd málefni.

Fjölskylda Steinunnar hefur áður fært Barnaspítala Hringsins gjafir og þá gjarnan í desembermánuði.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert