Refsað fyrir skammvina stroku inn á kynfæri

Dómsalur.
Dómsalur. mbl.is/RAX

Fjölskipaður Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðislega áreitni gegn konu. Maðurinn var sakfelldur fyrir að strjúka fætur hennar, maga, rass og bak utan klæða og eina skammvina stroku inn á kynfæri konunnar. Hann þarf að auki að greiða tæpa eina milljón króna í málskostnað.

Málið kom upp í maí á síðasta ári. Maðurinn og félagi hans voru að skemmta sér um nótt og hittu við skemmtanahaldið fjórar konur. Ákvað ein þeirra að bjóða mönnunum með heim og fylgdu einnig tvær vinkonur hennar. Þar hélt fólkið áfram að drekka en húsráðandi matreiddi ofan í alla flatböku.

Eftir að hafa matreitt ákvað konan að draga sig í hlé inni í herbergi þar sem hún reyndi árangurslaust að ná símasambandi við sambýlismann sinn. Þá tók hún töflu af kvíðastillandi lyfi og sofnaði. Á meðan þetta gerðist voru gestirnir enn í húsinu.

Öskraði á hann og fór

Konan vaknaði svo við það að annar mannanna var að káfa á henni og reyna komast inn fyrir föt hennar. Þegar hún fann hann fara með hönd í klof hennar innanklæða reif hún sig í gegnum svefninn, öskraði á hann og fór í annað herbergi. Hún fann manninn svo sofandi á sófa í stofunni um morguninn.

Maðurinn játaði að hafa farið upp í rúm til konunnar en sagði að hann hefði spurt áður. Þau hefðu verið að dansa um nóttina og þekkst fyrir. Hann sagði rétt að hann hefði strokið henni en neitaði alfarið að hafa snert bert hörund eða kynfæri hennar innan klæða. Þá sagðist hann ekki hafa haft ásetning til kynferðisathafna, vegna ölvunar, og hefði ekki ætlað sér að brjóta gegn konunni.

Maðurinn var ákærður fyrir að káfa á kynfærum konunnar innan klæða, en það þótti dóminum ósannað „heldur hafi verið um eina skammvinna stroku inn á kynfæri hennar að ræða“. Hann var að auki sakfelldur fyrir að káfa á konunni utan klæða.

Við mat á sekt var meðal annars litið til þess að konan tilkynnti lögreglu samdægurs um kynferðisbrotið og lagði fram kæru á hendur manninum daginn eftir. Frásögn hennar frá atburðum hafi frá upphafi verið á sama veg og hafi fengið einnig stoð í framburðum vinkvenna hennar fyrir dómi, sem báru um frásögn hennar og andlegt ástand eftir umrædda nótt. Þá lá fyrir að hún leitaði sér aðstoðar hjá neyðarteymi vegna áfalla að tveimur dögum liðnum og hjúkrunarfræðingur sem tók á móti henni bar fyrir dómi að hún hefði þá verið haldin augljósum streitueinkennum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka