Sögðu ákæruna óskýra

Frá aðalmeðferðinni. Sakborningar fyrir dómi.
Frá aðalmeðferðinni. Sakborningar fyrir dómi. mbl.is/Sigurgeir

Tveir menn sem ákærðir eru fyrir þátt sinn í skotárásarmálinu krefjast alfarið sýknu í málinu. Verjendur þeirra gagnrýndu meðal annars ákæruna sem þeir sögðu óskýra og vitnuðu í Baugsmálið til stuðnings máli sínu. 

Verjandi Tómasar Pálssonar Eyþórssonar sagði við munnlegan málflutning í morgun, að það vanti í ákæru lýsingu á refsiverðri háttsemi skjólstæðings síns. Koma verði fram í ákærunni einni hvernig hann hafi brotið af sér.

Hann sagði að það kæmi ekki fram hvernig Tómas eigi að vera hlutdeildarmaður í brotinu, hvernig hann á að hafa liðsinnt öðrum, hvatt eða komið að því að brotið hafi verið framið. „Ekkert kemur fram um að Tómas hafi lagt á ráðin, eða tekið ákvarðanir, útvegað skotvopn eða neitt annað í því skyni að skotið hafi verið.“

Þá benti hann á, að einn maður hafi skotið og ákæran gangi út á það. „Sá maður þarf enga hjálp við að skjóta. Honum var auðvelt að fullfremja brotið sjálfur án hjálp annarra í málinu. Eins gat sú staða verið uppi að hlutdeildarmönnunum hafi ekki verið kunnugt um skotvopnið fyrr en brotið var fullframið.“

Verjandinn sagði það liggja fyrir að tilgangur umrædds fundar í Bryggjuhverfinu hafi ekki verið friðsamlegur, og að Tómas eigi frumkvæðið að fundinum. „En það er ekki þar með sagt að byssa og skotárás hafi verið hluti af áætlun Tómasar til að losna undan þessari kúgun.“

Einn á móti öllum

Hann sagði fjölmargt benda til að Tómas hafi ekki vitað af byssunni, m.a. að hann var ekki með hulið andlit, hann hafi valið fundarstað sem vaktaður sé með níu eftirlitsmyndavélum. Þá sjáist á upptökum að hann hafi farið inn í skotlínuna. „Þetta lýsir varla hegðun manns sem veit að það stendur til að skjóta á bifreiðina.“

Einnig benti verjandinn á að Tómas væri nokkuð einn á báti í þessu máli. Hinir ákærðu væru vinir en Tómas þekki þá minna. Þá hafi framburður vitna í málinu verið afar óhagstæður Tómasi, enda hafi öll vitnin verið hliðholl hinum sakborningunum í málinu. Vitnisburður þeirra hafi einnig tekið breytingum frá því hjá lögreglu. „Og hér þarf að hafa í huga að Tómas er einn á móti öllum.“

Hann sagði framburð Tómasar hafa verið stöðugan frá því hann kaus að leysa frá skjóðunni hjá lögreglu, og ljóst sé af rannsóknargögnum að lögregla byggi mikið til á framburði hans.

Refsiverðri háttsemi ekki lýst

Verjandi Axels Más Smith sagði, að þegar ákæran í málinu sé lesin um þátt skjólstæðings síns verði ekki séð að lýst sé refsiverðri háttsemi. „Það er ekki öðru lýst en að hann hafi verið í bifreiðinni með þeim [...] en það er ekki lýst þessari hlutdeild í verknaði meðákærðu.“

Hann vísaði þá í Baugsmálið þar sem ákæruliðum var vísað frá vegna óskýrleika ákæru. „Það verður að lýsa því hvernig talið er að ákærði hafi brotið af sér.“

Þá lýsti hann aðkomu Axels að málinu sem er sú að Kristján Halldór Jensson hafið samband við hann sama kvöld og skotárásin var gerð, og bað hann að koma með sér til fundar við tiltekinn mann. Verjandinn benti á að komið hafi fram í málinu að Axel hafi ekki átt að fara út úr bílnum. Þá hafi hann ekki vitað annað um málið, en fara ætti fram með hótunum eða ógnunum til að viðkomandi maður léti af fjárkúgun.

Verjandinn sagði ekkert hafa komið fram sem benti til þess að Axel hafi vitað af skotvopni fyrr en af því var hleypt. Þá vildi hann óska þess, að hann hefði hlaupið burtu „en það er ekki þar með sagt að það sé ásetningur þó hann fari aftur inn í bifreiðina. Hann er ekki aðstöðu til að fara neitt annað, og hann gerir ekki ráð fyrir neinu framhaldi af þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert