Fréttaskýring: Ákvæði um vespur ekki innleidd 2004

Rafmagnsvespur eru vinsælar hér á landi
Rafmagnsvespur eru vinsælar hér á landi

Kvartanir frá gangandi vegfarendum og upplýsingar sem fyrir lágu um gáleysislegan akstur á rafmagnsvespum vógu þungt á metunum þegar Umferðarstofa var beðin um af hálfu innanríkisráðuneytisins að meta hvort rétt væri að rafmagsnsvespur yrðu skráningarskyldar og hvort sækja þyrfti námskeið til að öðlast réttindi til að aka þeim. Slíkt er lagt til í drögum að umferðarlögum sem fljótlega verða lögð fyrir Alþingi og eru drögin að mestu samhljóða tillögum Umferðarstofu frá júlí í fyrra.

Þetta var þó alls ekki eina ástæðan og nýja flokkunin tekur raunar mið af tíu ára gamalli Evróputilskipun sem var að mestu tekin upp í íslenska reglugerð árið 2004.

Fyrst fór að bera á rafmagnsvespunum hér á landi vorið 2010. Nokkur umræða var um hvaða reglur ættu að gilda um vespurnar en um sumarið var kveðið upp úr um að í samræmi við ákvæði umferðarlaga myndu þær flokkast sem reiðhjól.

Í drögum að umferðarlögum sem verða væntanlega lögð fyrir Alþingi innan skamms er skilgreiningu á reiðhjólum breytt og hún þrengd þannig að hún nær til „ökutækja“ sem knúin eru áfram með stig- eða sveifarbúnaði. Ákvæði sem gilda um reiðhjól gilda m.a. einnig um rafmagnshjól en þau eru sérstaklega skilgreind þannig að hámarksafl þeirra megi ekki vera meira en 0,25 kW og mótorinn má aðeins veita afl ef hjólið er stigið og hættir að veita afl þegar 25 km hámarkshraða er náð.

Þetta síðasttalda ákvæði er efnislega samhljóða því sem kemur fram í h-lið 1. greinar tilskipunar Evrópusambandsins númer 2002/24/EB, sem eins og númerið gefur til kynna er frá árinu 2002.

Samkvæmt upplýsingum frá Umferðarstofu var þessi tilskipun innleidd að mestu leyti í IV. viðauka við reglugerð um gerð og búnað ökutækja frá árinu 2004. Á hinn bóginn samræmdust hvorki íslensk lög né reglugerðir ofangreindum h-lið. Hefðu íslensk lög og reglugerðir samræmst tilskipuninni hefðu rafmagnvespur verið skráningarskyldar frá og með árinu 2004 og hefðu flokkast sem létt bifhjól. Þar með hefði þurft að sækja ökunám og fá ökuréttindi áður en leyfilegt var að aka þeim.

Búist við fjölgun

Samkvæmt upplýsingum Umferðarstofu eru tillögurnar um rafmagnsvespur að mestu samhljóða þeim sem gilda m.a. á Norðurlöndunum. Aukin notkun og upplýsingar um gáleysislegan akstur hafi orðið til þess að Umferðarstofa hafi talið nauðsynlegt að setja um þær skýrari og stífari reglur. „Umferðarstofa er fylgjandi þessum ferðamáta enda um hagkvæman, umhverfisvænan og þægilegan ferðamáta að ræða en um leið þarf að gæta að örygginu,“ segir Marta Jónsdóttir, yfirlögfræðingur Umferðarstofu. Gera megi ráð fyrir fjölgun minni og sparneytnari ökutækja í ljósi hækkandi orkuverðs og vitundarvakningu um umhverfisvernd.

Hér á landi hefur einnig verið seldur búnaður til að breyta venjulegum reiðhjólum í rafmagnshjól. Algengast er að mótorinn sé 0,5 kW og á þessum hjólum má komast yfir 50 km hraða, án þess að stíga fótstigin um leið. Ef hjólin komast hraðar en 25 flokkast þau sem létt bifhjól í flokki II. Komist þau hraðar en 45 km/klst munu þau flokkast sem bifhjól og mega þá eingöngu vera á akbrautum, skv. upplýsingum frá Umferðarstofu.

Skylda að skrá vespur

Í drögunum að umferðarlögum kemur fram að rafmagnsvespurnar megi vera á götum þar sem hámarkshraði er 50 km/klst. eða minni. Þær mega fara um sömu stíga og reiðhjól.

Vespurnar verða skráningarskyldar og tryggingaskyldar en ekki skoðunarskyldar. Almenn ökuréttindi nægja en ungmenni á aldrinum 15-18 ára þurfa að taka próf til að mega aka þeim enda er í nýju lögunum gert ráð fyrir að lágmarksaldur til að öðlast ökuréttindi verði 18 ár. Verði drögin að lögum verður að vera með mótorhjólahjálm á vespunum, reiðhjólahjálmur dugar ekki.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert