Oddný Harðardóttir, starfandi iðnaðarráðherra, segir að biðflokkur rammaáætlunar sé ekki geymsluflokkur fyrir umdeildar virkjanir. Þegar búið sé að fullrannsaka virkjanir og meta gögnin eigi að flokka virkjanakosti annaðhvort í orkunýtingu eða vernd.
Oddný sagði þetta á ársfundi Orkustofnunar fyrir helgi. Hún ræddi þar um frumvarp um rammaáætlun en samkvæmt því eru nokkrar virkjanir sem upphaflega voru metnar í nýtingarflokk settar í biðflokk. Þetta eru þrjár virkjanir í neðri hluta Þjórsár; Urriðafossvirkjun, Holtavirkjun og Hvammsvirkjun. Sömuleiðis þrjár virkjanir á hálendinu; Hágönguvirkjanir I og II og Skrokkölduvirkjun.
„Ég legg á það ríka áherslu að biðflokkurinn er ekki geymsla fyrir umdeilda virkjunarkosti. Í lögum um rammaáætlun er kveðið skýrt á um það hvaða rök réttlæta að flokka virkjunarkost í biðflokk. Þangað má aðeins setja virkjunarkosti þar „sem er talið að afla þurfi frekari upplýsinga um svo meta megi hvort þeir eigi að falla í orkunýtingarflokk eða verndarflokk“. Ef virkjunarkostur er fullrannsakaður og fyrirliggjandi gögn metin fullnægjandi ber að flokka hann í orkunýtingu eða vernd.
Það kemur síðan í hlut nýrrar verkefnisstjórnar rammaáætlunar, sem skipuð verður í kjölfar samþykktar Alþingis, að hrinda í framkvæmd nauðsynlegri rannsóknarvinnu og lögð er áhersla á að tillaga um endanlega flokkun liggi fyrir svo fljótt sem auðið er. Því er það mikilvægt að hefja aftur hina faglegu vinnu sem allra fyrst,“ sagði Oddný.