Gríðarlega mikilvægt samstarf

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir samkomulag það sem var undirritað við kínversk yfirvöld í gær um jarðhitasamstarf í þróunarríkjunum, gríðarlega mikilvægt. Össur mun sýna Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, Hellisheiðarvirkjun nú síðdegis.

Samningurinn var undirritaður af Össuri og ráðherra auðlinda- og landnýtingar í Kína í Þjóðmenningarhúsinu í gær.

Samstarfsyfirlýsingin gefur tækifæri til þess að Ísland og Kína vinni sameiginlega að rannsóknum, forkönnunum, þróun og framkvæmd á virkjun jarðhita í þróunarlöndum, meðal annars hugsanlega aðkomu Kína að samstarfi Íslands og Alþjóðabankans um þróun jarðhitanýtingar í sigdalnum í austurhluta Afríku.

Að sögn Össurar felur samstarfið í sér  að jarðhitarannsóknir verði gerðar í þrettán ríkjum Austur-Afríku þar sem víða er ónýttan jarðhita að finna.

Utanríkisráðuneytið gerði í janúar samkomulag við Alþjóðabankann um samstarf um að hraða jarðhitavæðingu  í  Djíbútí, Eþíópíu, Úganda, Erítreu, Keníu, Suður-Súdan, Tansaníu, Malaví, Mósambik, Búrúndí, Rúanda, Sambíu og Sómalíu. 

Mikil orkufátækt er í þessum ríkjum en sérfræðingar telja að í sigdalnum, sem er 6.000 km langur, sé mögulegt að virkja allt að 14.000 MW úr jarðhita og veita þannig yfir 150 milljónum manna aðgang að hreinni orku.

Samstarfið gerir ráð fyrir að Íslendingar aðstoði ríkin á svæðinu við að meta bestu jarðhitasvæðin, gera nauðsynlegar grunnrannsóknir og veita liðsinni við gerð áætlana um jarðboranir til þess að meta stærð auðlindanna. Alþjóðabankinn mun hins vegar nýta eigin fjármögnunarleiðir til að gera ríkjunum kleift að gera nauðsynlegar hagkvæmniathuganir og hefja slíkar boranir. Í framhaldinu verði unnt að ráðast í skipulagðar virkjanaframkvæmdir til raforkuframleiðslu og fjölnýtingar jarðhitans í atvinnuskyni.

Ríkin þrettán í Austur-Afríku sigdalnum eru mislangt á veg komin í nýtingu jarðhita til orkuframleiðslu.  Þannig hefur Kenía til dæmis þegar virkjað umtalsverðan jarðhita og hefur stórhuga áætlanir um frekari virkjanir á meðan önnur ríki eins og Búrúndi eru á byrjunarreit.

Að sögn Össurar hófust viðræður við kínversk yfirvöld um að koma að jarðhitaverkefninu með Íslendingum fyrir tveimur árum. Í fyrstu hafi kínversk yfirvöld tekið dræmt í slíkt samstarf en í fyrra komst skriður á málið og eins og áður sagði var samkomulagið undirritað í gær. Össur á alveg eins von á því að fleiri ríki eigi eftir að taka þátt í verkefninu sem er næsta verkefni Íslendinga á sviði þróunaraðstoðar.

Íslendingar og Kínverjar hafa undanfarin ár verið í samstarfi varðandi jarðhitaverkefni í Kína og hafa Kínverjar hug á að skoða betur möguleika á að setja upp hitaveitur á allt að 400 stöðum í Kína þar sem íslensk tækni verður höfð í fyrirrúmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert