Skýrara bann verði samþykkt

Bjór
Bjór mbl.is

Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis leggur til að frumvarp innanríkisráðherra um skýrara bann við áfengisauglýsingum verði samþykkt og lögin taki gildi 1. júlí næstkomandi. Í nefndarálitinu er á það bent, að bann við auglýsingum á áfengi hafi verið í gildi frá árinu 1928 en markmiðið sé að koma í veg fyrir að farið sé á svig við gildandi lög eins og viðgengist hefur undanfarin ár.

Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á lögunum sem miða að því að koma í veg fyrir að farið sé í kringum bannið, en slíkt hefur viðgengist þegar óáfeng vara er auglýst með ríkri tilvísun til hinnar áfengu. Því er mælt fyrir um það í frumvarpinu að bannið nái til þess þegar vökvi sem er undir 2,25% af hreinum vínanda er auglýstur ef um er að ræða markaðssetningu í umbúðum sem getur skapað hættu á ruglingi milli áfengu vörunnar og hinnar óáfengu.

Einnig er lagt til að eftirlit með banni gegn brotum við auglýsingum á áfengi verði hjá Neytendastofu en ekki hjá lögreglu líkt og nú tíðkast. Því er kveðið á um að Neytendastofa geti lagt stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem af ásetningi eða gáleysi brýtur gegn banninu og geta þær numið allt að 20 milljónum króna.

„Auglýsingum er ætlað að byggja upp eftirspurn. Aukin eftirspurn eftir áfengi eykur neyslu þess og aukin neysla eykur samfélagslegan skaða af neyslunni. Dauðsföllum fjölgar, sem og slysum og sjúkdómum sem rekja má til neyslunnar. Þá eykst kostnaður í heilbrigðis-, félags- og dómskerfi og veldur einstaklingum óþarfa þjáningum og fjölskyldum sárum harmi. Vert er að hafa í huga að þær auglýsingar sem frumvarpið fjallar um er sérstaklega beint að ungu fólki,“ segir í áliti meirihlutans og áréttað að um langa tíð hafi verið bannað að auglýsa áfengi hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina