Boð send í um átta hundruð síma

Viðvörunarkerfi almannavarna, sem sendir neyðarskilaboð í farsíma var prófað í …
Viðvörunarkerfi almannavarna, sem sendir neyðarskilaboð í farsíma var prófað í dag. Svæðið sem valið var til prófunar í dag er á þjónustusvæði símafyrirtækjanna í Vík í Mýrdal. Hér fylgjast menn með árangrinum úr samhæfingarmiðstöðinni í Skógarhlíð. mbl.is/Júlíus

„Við erum mjög sátt við þessa fyrstu niðurstöður,“ segir Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, um prófun á viðvörunarkerfi almannavarna sem fram fór í dag. Prófað var á þjónustusvæði símafyrirtækjanna í Vík í Mýrdal og voru um átta hundruð farsímar á svæðinu. Þar af var töluverður fjöldi útlendinga.

Víðir segir að prófunin hafi gengið eins von var á. „Á fyrstu sekúndunum voru við komin með um sjötíu prósent þeirra síma sem fengu skilaboðin og áttatíu prósent eftir fáeinar mínútur. Þannig að það er mjög gott.“

Á morgun verður farið í að rýna betur í tölurnar, en þá verður hægt að greina hvernig farsímakerfið brást við, hvort skilaboðin hafi borist í alla símana eða hvort einhver stífla hafi myndast. „Þegar við erum búin að sjá hvort kerfið hafi hagað sér eins og búist var við eða hvort einhverju þarf að breyta kemur í ljós hvort við þurfum að prófa þetta aftur. En ef allt er eins og það á að vera er kerfið tilbúið til notkunar.“

Víðir segir að reynsla sé fyrir hendi af því að boða númer í kerfi Neyðarlínunnar en það sé yfir þúsund farsímar, þannig að þegar í ljós kom að um átta hundruð farsímar voru á svæðinu hafi menn verið mjög bjartsýnir á að allt færi vel.

mbl.is