Gídeon dreifi áfram í Hafnarfirði

Hafnarfjarðarkirkja.
Hafnarfjarðarkirkja. mbl.is

Gídeon-félagið getur áfram dreift Nýja testamentinu þrátt fyrir nýjar reglur um samskipti skóla við trúar- og lífsskoðunarfélög í Hafnarfirði. Þetta segir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks og segir að farin hafi verið önnur leið en í Reykjavík, opnað hafi verið á þetta en ekki bannað.

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag samþykkti fræðsluráð Hafnarfjarðarbæjar í morgun nýjar viðmiðunarreglur um samskipti leik- og grunnskóla Hafnarfjarðar við trúar- og lífsskoðunarfélög. Reglurnar eru nánast samhljóða þeim sem samþykktar voru í Reykjavík í fyrrahaust en þrátt fyrir það segir Sigurlaug Anna Jóhannsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokks í fræðsluráði, að farin hafi verið önnur leið.

„Trúfélögin mega koma og heimsækja skólana. Þau mega ekki koma inn í skólana með boðandi efni en þau mega dreifa fræðsluefni. Það er því ekki verið að loka á Nýja testamentið og Gídeon-félagið getur enn dreift efni sínu með þeim hætti. Það er verið að opna á jafnræði á milli félaga,“ segir Sigurlaug Anna.

Efni sem stuðlar að menningarlæsi

Í reglunum segir að trúar- og lífsskoðunarfélög skuli ekki stunda starfsemi sína innan veggja leik- og grunnskóla bæjarins á skólatíma. „Þetta á við allar heimsóknir í lífsskoðunar- og trúarlegum tilgangi og dreifingu á boðandi efni. Með boðandi efni er átt við hluti sem gefnir eru eða notaðir sem hluti af trúboði, það er tákngripir, fjölfölduð trúar- og lífsskoðunarrit, bækur, hljóðrit, prentmyndir og kvikmyndir.“

Í enda greinarinnar segir: „Ekki er átt við efni sem tengist fræðslu er stuðlar að menningarlæsi barna.“ Þessa setningu er ekki að finna í reglum Reykjavíkurborgar og skiptir sköpum að því er Sigurlaug Anna segir.

Þannig að þú telur Nýja testamentið fræðsluefni?

„Það er ekki tekin afstaða til þess þarna og það á eftir að koma í ljós hvort menn telji það vera það,“ segir Sigurlaug Anna. „En ef efni frá trúar- og lífsskoðunarfélögum er fræðandi og partur af menningarlæsi barna þá er það heimilt og öllum veitt sama heimild til að dreifa slíku efni. Það er því verið að fara öfuga leið miðað við Reykjavík, verið að opna en ekki banna.“

Spurð nánar út í muninn á boðandi efni og fræðsluefni segir Sigurlaug Anna: „Ef þetta er of prédikandi efni þá telst það vera boðandi efni, en Nýja testamentið og önnur rit sem gefin eru út sem fræðsluefni og hafa upplýsandi gildi teljast þá vera fræðsluefni. Á þessu er gerður munur.“

Félögunum er þá heimilt að koma í skólana og dreifa efni sem þau telja fræðsluefni?

„Já, en að undangenginni heimild. Það segir í reglunum að ríki ágreiningur um túlkun þessara reglna úrskurði Fræðsluþjónustan í þeim efnum. Þegar trúfélög eða lífsskoðunarfélög óska eftir því að koma með efni inn í skólana munu þau senda það skólastjóra og óska eftir innkomu. Það verður svo metið hvort það sé fræðsluefni og þannig munu menn geta komist inn og afhent börnunum það."

Trúfélögin ættu að því vera ánægð með nýju reglurnar?

Já, enda komu engar umsagnir frá prestum Hafnarfjarðarkirkju eða Fríkirkjunnar sem við funduðum með.

Biblían.
Biblían. Árni Sæberg
mbl.is