Fréttaskýring: Þörf á að bæta skipulagið

Kynferðisbrotamenn eru í forgangsröðun hjá Fangelsismálastofnun hvað varðar eftirfylgni eða …
Kynferðisbrotamenn eru í forgangsröðun hjá Fangelsismálastofnun hvað varðar eftirfylgni eða eftirmeðferð. mbl.is/Ómar

Forstjóri Barnaverndarstofu segir að á Íslandi sé ekki nægilega gott skipulag á málum er varða meðferð fyrir fanga sem eru haldnir barnagirnd. „Utan fangelsa er klárlega ekkert skipulagt meðferðartilboð til staðar. Þetta er eitt af því sem við þurfum að laga,“ segir Bragi Guðbrandsson.

„Lyfjameðferð og raunar samtalsmeðferð af ýmsu tagi, eða sálfræðimeðferð, er það tilboð á meginlandi Evrópu sem menn hafa lagt einna mest áherslu á,“ segir Bragi sem er þeirrar skoðunar að blönduð meðferð, þ.e. lyfja- og samtalsmeðferð, sé áhrifaríkust.

Fangelsismálastofnun segir að dæmdum kynferðisbrotamönnum sé boðið upp á einstaklingsmeðferð sem byggi á sannreyndum og markvissum aðferðum eins og hugrænni atferlismeðferð og sé nálgunin sniðin að þörfum hvers og eins.

Breskt tilraunaverkefni með lyfjagjöf

Frá árinu 2009 hefur tilraunaverkefni verið í gangi í Whatton fangelsinu í Nottinghamskíri í Bretlandi. Þar eru vistaðir rúmlega 800 fangar sem eru allir kynferðisbrotamenn. Meirihluti fanganna eru barnaníðingar, eða um 70% þeirra.

Í umfjöllun á  vef breska ríkisútvarpsins segir að í fangelsinu sé m.a. verið að gera tilraun með lyf til að bæla niður kynferðislegar hugsanir og hvatir fanganna. Verið er að nota þunglyndislyf og svokölluð anti-andrógen lyf. Aðferðin þykir umdeild og hefur þetta verið kallað kemísk gelding. Lynn Saunders, forstöðumaður fangelsisins, segir í samtali við BBC að svo virðist sem lyfjameðferðin sé að skila tilætluðum árangri, þ.e. að dregið hefur úr löngun mannanna í kynlíf. Það er þó tekið fram í fréttinni að fámennur hópur taki þátt í þessari tilraun, eða um 60 fangar.

Whatton fangelsið er stærsta endurhæfingarmiðstöð kynferðisbrotamanna í Evrópu. Aðeins þeir fangar sem hafa samþykkt að gangast undir meðferð fá að fara þangað. Fram kemur að sumir fangar geti þurft að bíða í allt að þrjú ár til að komast í viðeigandi meðferð.

Styttist í fullgildingu Lanzarote-samningsins

Bragi bendir á að Alþingi muni brátt fullgilda samning Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu á alþjóðavísu. Samningurinn er kenndur við Lanzarote þar sem hann var gerður árið 2007. Hann er fyrsti alþjóðlegi gerningurinn þar sem kynferðislegt ofbeldi barna í hinum ýmsu myndum er gerð refsiverð.

Í samningnum er að finna meðferðartilboð, bæði hefðbundna viðtalsmeðferð og lyfjameðferð, sem á að standa þeim til boða sem vilja þiggja hana. Bragi segir að ekki sé gert ráð fyrir því í samningnum að hægt verði að þvinga menn til að gangast undir slíkar meðferðir.

Nýverið benti hann hins vegar á að hluti þeirra 5-10 kynferðisbrotamanna hér á landi, sem taldir eru haldnir barnagirnd á mjög háu stigi, hafi hafnað bæði lyfja- og sálfræðimeðferð að lokinni afplánun fyrir brot sín.

Miklar aukaverkanir

Fram til þessa hefur lyfjameðferð ekki verið talin mjög áhrifarík að sögn Braga. Lyfjunum fylgi miklar aukaverkanir t.d. svefnleysi, minnistruflanir og munnangur. Reynslan sýni að menn hætti gjarnan að taka inn lyfin vegna aukaverkananna. Bragi tekur þó fram að ávallt sé verið að þróa ný og betri lyf með minni aukaverkunum.

„Þetta eru lyf sem eru raunverulega framleidd til að vinna bug á þunglyndissjúkdómum. En svo uppgötva menn eiginlega fyrir tilviljun að þau hafa þessa aukaverkun, það er að segja að menn missa kynhvötina,“ segir Bragi. Þetta séu almenn áhrif við töku lyfjanna en eigi ekkert sérstaklega við barnaníðinga.

Viðeigandi meðferðartilboð standi mönnum til boða

Bragi segir að lyfin hafi verið notuð á barnaníðinga með nokkrum árangri í sumum tilvikum. Vandinn sé hins vegar sá að mennirnir haldist illa á lyfjunum vegna fyrrgreindra aukaverkana, jafnvel þó að það sé einlægur vilji þeirra að halda áfram að taka lyfin. „Í sumum tilvikum getur þetta virkað og þá er þetta tilraunarinnar virði,“ segir Bragi en ítrekar að blönduð aðferð sé áhrifaríkust.

Þegar búið verður að fullgilda Lanzarote-samninginn þá þurfa íslensk stjórnvöld að koma þessum málum í tiltekinn farveg að sögn Braga. „Þeir sem eru haldnir slíkum hvötum eiga rétt á því að geta snúið sér eitthvað til að fá hjálp til að halda þeim niðri.“

Hann segir að í dag sé ágætt fyrirkomulag í gildi varðandi unga gerendur, eða börn undir 18 ára sem sýni óviðeigandi kynferðislega hegðun.

„Það sem við þurfum að gera núna í kjölfar fullgildingar þessa samnings, er að sjá til þess að viðeigandi meðferðartilboð standi fullorðnum brotamönnum til boða - og ekki bara brotamönnum - heldur líka þeim sem vilja sjálfir fá hjálp við að halda aftur af þessum hvötum sínum,“ segir Bragi og bætir við að þetta sé verkefni sem velferðarráðuneytið verði að gefa gaum í kjölfar fullgildingar samningsins.

Reyna að koma í veg fyrir ítrekun brota

Sem fyrr segir þá er dæmdum kynferðisbrotamönnum hér á landi boðið upp á einstaklingsmeðferð sem byggir á sannreyndum og markvissum aðferðum eins og hugrænni atferlismeðferð og er nálgunin sniðin að þörfum hvers og eins, samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun.

Haukur Einarsson, sálfræðingur hjá Fangelsismálastofnun, segir að stundum sé áhugi einstaklinga á meðferð ekki fyrir hendi og þá sé reynt að ýta undir áhuga þeirra til breytinga með því að nota aðferðir eins og áhugahvetjandi samtal (e. motivational interviewing) o.fl. Í meðferðinni sé markmiðið annars vegar að beina kynferðislegum áhuga einstaklings á nýjar brautir og hins vegar að koma í veg fyrir ítrekun brota.

Að sögn Hauks er ferlið eftirfarandi:

  1. Sálfræðingar fá upplýsingar um kynferðisbrotamenn frá Fangelsismálastofnun og koma upplýsingar oftast frá lögfræðingum stofnunarinnar.

  2. Hópnum er raðað eftir eðli brots, sem oftast er nauðgun eða barnahneigð, og einstaklingar eru boðaðir í viðtöl.

  3. Kannaður er vilji hvers og eins til að taka á sínum málum og fara í meðferð. Eftir því sem við á, er einstaklingum boðið upp á meðferð eða reynt er að skapa hjá þeim hvöt að leita sér meðferðar.

  4. Boðið er upp á sérhæfða einstaklingsmeðferð sem byggist á hugrænni atferlismeðferð.

  5. Boðið er upp á eftirmeðferð/eftirfylgni hjá sálfræðingi á Fangelsismálastofnun að lokinni afplánun.

Mikið álag

Kynferðisbrotamenn eru í forgangsröðun hjá Fangelsismálastofnun hvað varðar eftirfylgni eða eftirmeðferð.

Haukur bendir á að á Íslandi hafi kynferðisbrotamenn verið dæmdir í meðferð hjá sálfræðingi og hafi Fangelsismálastofnun fylgt því eftir. Kynferðisbrotamönnum, sem hafa ekki verið dæmdir í meðferð hjá sálfræðingi, séu sett skilyrði við reynslulausn hjá Fangelsismálastofnun, sem meðal annars felst í því að ganga til sálfræðings í ákveðinn tíma sé talin þörf á því.

Hvað varðar lyfjagjöf þá hafi það verið notað á Íslandi fyrir kynferðisafbrotamenn sem greindir eru með barnagirnd.

Haukur segir að miðað við fjölda kynferðisbrotamanna og álagið sem sé á sálfræðingum stofnunarinnar þá nái þeir oft á tíðum ekki að fylgja þessu nægilega vel eftir.

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu.
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu. mbl.is/Golli
Blönduð meðferð, þ.e. lyfja- og samtalsmeðferð, er áhrifaríkust að mati …
Blönduð meðferð, þ.e. lyfja- og samtalsmeðferð, er áhrifaríkust að mati Braga. mbl.is/Sverrir
mbl.is/G.Rúnar
Bragi Guðbrandsson segir að ágætt fyrirkomulag sé í gildi varðandi …
Bragi Guðbrandsson segir að ágætt fyrirkomulag sé í gildi varðandi unga gerendur, eða börn undir 18 ára sem sýni óviðeigandi kynferðislega hegðun. mbl.is/G.Rúnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert