Vinnslustöðin ver arðgreiðslur

Vinnslustöðin Vestmannaeyjum
Vinnslustöðin Vestmannaeyjum mbl.is

Með því að greiða út 820 milljóna arð til hluthafa var Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum að gera upp síðasta rekstrarár. Ljóst er að næstu ár verða mun erfiðari í rekstrinum og því var gripið til uppsagna, að sögn Sigurgeirs B. Kristgeirssonar framkvæmdastjóra félagsins, sem ver arðgreiðslurnar. 

Eins og fram kom í fjölmiðlum í gær sagði Vinnslustöðin upp 41 starfsmanni, þar af 30 á togaranum Gandí. Ellefu starfanna eru í landvinnslu.

- Fram hafa komið efasemdir um að Vinnslustöðin hafi þurft að grípa til þessara uppsagna í ljósi þess að 820 milljón króna arður var greiddur út til hluthafa. Hvernig bregstu við slíkum sjónarmiðum?

„Arðurinn er greiddur út vegna afkomu síðasta árs og rekstri félagsins. Viðbrögðin með uppsögnum á Gandí eru vegna veiðigjaldsins eins og þau verða í framtíðinni. Þetta er nákvæmlega það sama og við gerðum árið 1999 þegar við sögðum helmingnum af starfsfólkinu upp af því að rekstur félagsins gekk ekki. Þá snerist reksturinn við og hann hefur verið arðsamur síðan. Með arðsömum rekstri gerist það að fyrirtækið eflist, það fjölgar starfsfólki og það verða aukin umsvif í kringum það.“

- Ef þið grípið til þessara uppsagna og hagræðið telurðu engu að síður að fyrirtækið ráði ekki við veiðigjöldin?

„Nei. Þau veiðigjöld sem boðuð eru í frumvarpinu fá ekki staðist. Ef til dæmis er litið til skýrslu Daða Más Kristóferssonar hagfræðings segir þar að á næstu árum verði miklir umhleypingar í sjávarútvegi á meðan hann aðlagast breyttum aðstæðum. Það stendur líka í skýrslu Deloitte að 60% sjávarútvegsfyrirtækja muni ekki ráða við þau veiðigjöld sem er nýbúið að leggja á.

Þá er aðeins verið að tala um fyrirtækin. Í samantekt Ragnars H. Hall sem hann sendi til atvinnuveganefndar segir að hlutabréf Vinnslustöðvarinnar miðað við sjóðstreymi í framíðinni fari úr genginu 6 og niður í 0,6. Sem sagt 90 prósent af virði hlutabréfanna hverfur og við því þurfum við að bregðast sem hluthafar.“

Glapræði að setja arðinn í reksturinn

- Hvað með það sjónarmið að í stað þess að greiða þennan arð út núna hafi Vinnslustöðin getað haldið eftir arðinum til að verja þau störf sem nú eru hverfa?

„Við erum með 1,5 milljarð króna bundinn í skipinu [Gandí]. Vextir af því láni eru 100 milljónir á ári. Ef framlegðin fyrir vexti og afskriftir er neikvæð þá eigum við eftir að borga fjármagnskostnaðinn og verðmætisrýrnun skipsins, sem sagt afskriftir ofan á afborganir lána. Rekstur sem tekur til sín peninga getur aldrei farið öðru vísi en á hausinn. Það er betra að bregðast við fyrirfram heldur en eftir á með gjaldþroti.

Með því að setja arðinn í útgerð sem ber sig ekki er verið að kasta fé á glæ. Það yrði tapað fé.“

Sigurgeir B. Kristgeirsson
Sigurgeir B. Kristgeirsson mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina