Fara fram á rannsókn á Samtökum fjármálafyrirtækja

Samkeppniseftirlitið
Samkeppniseftirlitið mbl.is/Heiðar

Hagsmunasamtök heimilanna hafa farið fram á rannsókn Samkeppniseftirlitsins á aðkomu Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) að samráði í kjölfar dóms Hæstaréttar í gengislánamáli.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa beint formlegu erindi til Samkeppniseftirlitsins með ósk um að hafin verði rannsókn á aðkomu Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) að samstarfi fjármálafyrirtækja og opinberra aðila í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli nr. 600/2011 um fullnaðargildi kvittana o.fl.

Í tilkynningu frá samtökunum kemur fram að forsaga málsins er sú að í febrúar síðastliðnum óskuðu Samtök fjármálafyrirtækja eftir undanþágu frá bannákvæðum samkeppnislaga, vegna samráðs fjármálafyrirtækja um endurútreikning, málaferli og ýmis úrlausnarefni vegna óskuldbindandi samningsákvæða um gengistryggingu.

Þann 9. mars sl. féllst Samkeppniseftirlitið  á veitingu takmarkaðrar undanþágu fyrir slíku samstarfi. Að fengnum athugasemdum, þar á meðal frá Hagsmunasamtökum heimilanna, voru hinsvegar lögð afmarkandi skilyrði fyrir undanþágunni, ásamt viðurlögum við brotum á þeim. Ákvörðunin veitir aðeins fjármálafyrirtækjum sem stundað hafa útlánastarfsemi undanþágu, og í ákvörðunarorðum er áréttað bann við þátttöku samtaka fjármálafyrirtækja í samstarfinu að öðru leyti en að þeim sé heimilt að útvega fundaraðstöðu og ritara.

„Hagsmunasamtök heimilanna hafa heimildir fyrir því og rökstuddan grun um að þátttaka Samtaka fjármálafyrirtækja hafi í reynd orðið talsvert meiri en skilyrði Samkeppniseftirlitsins fyrir veitingu undanþágunnar kveða á um. Er sá grunur meðal annars studdur af ummælum sem fallið hafa í viðtölum fjölmiðla við forstjóra Fjármálaeftirlitsins, Umboðsmanns skuldara, auk upplýsinga sem fram koma í fréttatilkynningum frá embættinu og Samtökum fjármálafyrirtækja.

Af þessum sökum hafa Hagsmunasamtök heimilanna óskað eftir því við Samkeppniseftirlitið að hafin verði rannsókn á aðkomu SFF að samráði fjármálafyrirtækja, Umboðsmanns skuldara o.fl. í kjölfar dóms Hæstaréttar þann 15. febrúar síðastliðinn, með hliðsjón af því hvort farið hafi verið á svig við skilyrði fyrir ákvörðun eftirlitsins um veitingu undanþágu til samstarfsins,“ segir í tilkynningu frá Samtökum heimilanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert