Lýsing endurreiknar í kjölfar dóma

mbl.is/Eggert

Lýsing segir að í kjölfar tveggja dóma sem féllu í Hæstarétti í síðustu viku megi sætta ýmis ágreiningsmál um endurreikning gengistryggðra samninga á grundvelli laga, samningsskilmála og fenginna fordæma í Hæstarétti.

Í tilkynningu sem birt hefur verið á vef félagsins segir, að búast megi við að úrlausn fáist um kröfur um nýjan endurreikning að stórum hluta innan tveggja til þriggja mánaða.

„Dómar Hæstaréttar nr. 625 og 626/2014 hafa skýrt frekar réttarstöðuna varðandi mikilvæg álitaefni um beitingu fullnaðarkvittunar vegna samninga með ólögmætu gengisviðmiði. Með framangreindum dómum féllst Hæstiréttur á vægari skilyrði fyrir beitingu undantekningarreglu kröfuréttar en áður hafði verið gert,“ segir Lýsing. 

Er viðskiptavinum bent á frekari upplýsingar og leiðbeiningar á þjónustuvef félagsins.

Þar er hægt að senda inn umsókn þar sem farið er fram á að greiðsluferill gengistryggðs samningur eða samningar verði endurreiknaðir á grundvelli fullnaðarkvittana og reglna um endurgreiðslu ofgreidds fjár og hafna um leið fyrri endurreikningi samnings eða samninga.

Lýsing reiknaði sér viðbótarvexti fyrir liðna tíð

Ágreiningur í gengislánadómunum, sem féllu í Hæstarétti 5. mars, laut að því hvort lántakendur gætu borið fyrir sig fullnaðarkvittanir vegna greiddra vaxta frá stofndegi lánssamningsins til maí 2010, vegna þess hluta lánsins sem bundinn var ólögmætri gengistryggingu.

Lýsing hafði með endurútreikningi sínum reiknað sér viðbótarvexti fyrir liðna tíð eða frá stofndegi lánssamningsins til júní 2010 en endurreikningar lánanna fóru fram í október 2010.

„Lántakendurnir báru fyrir sig fullnaðarkvittanir með fyrirvaralausum afborgunum gagnvart þeim vöxtum sem þau höfðu greitt frá stofndegi lánsins. Þau voru því búin að greiða vexti fram að endurútreikningi lánsins. Niðurstaða Hæstaréttar lýtur svo að því að Lýsing má ekki endurreikna vexti lánanna með seðlabankavöxtum aftur að stofndegi lánsins,“ sagði Ólafur Örn Svansson hæstaréttarlögmaður, sem flutti bæði málin gegn Lýsingu í Hæstarétti, í samtali við Morgunblaðið sl. föstudag. Hann benti á, að í öðru málinu hefði verið gengið lengra og komst dómurinn að þeirri niðurstöðu að ekki skipti máli þó vanskil hefðu verið á vaxtagreiðslum.

Dómar Hæstaréttar hafa fordæmisgildi

„Sú niðurstaða er mjög áhugaverð og mun hafa gífurleg áhrif á önnur mál en þrátt fyrir vanskil á öllum vaxtagreiðslum má ekki samkvæmt dóminum endurreikna vexti eins og Lýsing gerði,“ sagði hann.

„Deilumál, sem rata til dómstóla vegna gengislána eru oft mjög flókin og tæknileg en óhætt að segja að með þessum tveim dómum eru á þrotum síðustu varnir Lýsingar. Þeir eru búnir með allan þann málatilbúnað sem þeir hafa tjaldað til. Ég trúi því ekki öðru en að þessir tveir dómar hafi fordæmisgildi fyrir alla bílasamninga Lýsingar, sem almenningur er með,“ sagði Ólafur ennfremur. Dómar Hæstaréttar hefðu því fordæmisgildi í meira en fjögur hundruð öðrum sambærilegum málum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK