Ná áttum á ný með íslenskum hestum

Nemandi á námskeiði Claudiu teymir hest í gegnum þrautir.
Nemandi á námskeiði Claudiu teymir hest í gegnum þrautir. Ljósmynd/magnus.ch

Íslenski hesturinn á sér mörg hlutverk og hestamennskan á sér marga þræði. Sumir eyða sumrinu með hestakerru í eftirdragi á milli mótsstaða til að keppa á meðan aðrir ríða um fjöll og firnindi í ferðum og enn aðrir kjósa meiri rólegheit í stuttum útreiðartúrum. Svo eru tamningamenn, þjálfarar, ræktendur og svona mætti lengi telja.

Í Sviss er talsverð Íslands-hestamenning og þar hefur íslenski hesturinn fengið göfugt hlutverk við að koma stjórnendum, sem eru orðnir leiðir í starfi eða finnst þeir ekki vera að skila tilætluðum árangri, aftur á beinu brautina.

Claudia M. Sidler, hestahvíslari, reiðkennari og þjálfari, rekur fyrirtæki sem býður upp á leiðtogaþjálfun og til þess eru notaðir eingöngu íslenskir hestar. Námskeiðin eru mismunandi, hópnámskeið stjórnenda úr mismunandi áttum, hópnámskeið vinnustaða og námskeið fyrir kennara sem vilja ná betri tökum í kennslustofunni.

Claudia var hér á landi nýverið ásamt vinkonu sinni og bauðst blaðamanni að eyða með henni morgunstund til að fræðast um aðferðir hennar og sýn. Á eftir ljúffengum morgunverði og spjalli var síðan farið í reiðtúr á íslenskum hestum í íslenskri náttúru í góðum félagsskap með þeim Regulu Horner, vinkonu Claudiu og Eydísi Indriðadóttur, gestgjafa þeirra hér á landi.

„Öll hross þurfa leiðtoga“

„Á námskeiðunum kemst fólk aftur í snertingu við sjálft sig. Galdurinn er sá að hesturinn þarf leiðtoga. Hann er þannig í eðli sínu og í hjörðinni eru leiðtogar sem hinir fylgja. Hesturinn finnur veikleikana og með þá þarf fólk að vinna. Hesturinn hjálpar til við að yfirstíga vandamálin og verkefnin eru mikil áskorun fyrir hvern og einn,“ segir Claudia.

Á námskeiðunum er mest unnið í skógi með allskonar þrautir og verkefni sem fara fram gegnum taumsamband, en sjaldnast er um að ræða að nemendur fari á bak hestunum.

Les nemandann út frá hrossinu sem hann velur

„Ég set nemendurna inn í hóp af hestum og þar á fólk að velja sér hest til að vinna með. Í raun er það svo að hestur og maður velja hvorn annan. Út frá því hvaða hest hver og einn velur les ég viðkomandi nemanda, því ég þekki hestana svo vel. Í um 80% tilvika hef ég rétt fyrir mér með persónuleikalýsinguna og út frá henni vinn ég á námskeiðinu,“ segir Claudia sem hefur staðið fyrir námskeiðum sem þessum síðan árið 1999.

Þrautirnar sem þarf að leysa geta verið margskonar. Teyma hest eftir keilum, fara með þá í gegnum hangandi gardínur, yfir rauða mottu og svo eru notaðir lengri taumar einnig og fólk látið stjórna hestinum aftanfrá.

Segir hestinn opna sál og hjarta fólks

„Hesturinn opnar sál og hjarta,“ segir Claudia og hún segir hann hafa sjötta skilningsvitið. Hann skynji það sem fólk hugsar og tilfinningar viðkomandi líka.

„Hesturinn finnur hvað þú ert að hugsa og ef þú ert búinn að ákveða þegar þú kemur að þraut að hesturinn muni ekki fara yfir hana eða þú hræðist verkefnið þá mun hesturinn stoppa einnig,“ segir Claudia. Hún segir þetta oft koma fram og þegar þetta gerist tekur við það verkefni að vinna hestinn aftur á sitt band til að leysa þrautina. Þetta megi setja í samhengi við vinnustaðinn. Þegar undirmennirnir skynja að það sé ekki traust eða að yfirmenn hafi ekki trú á því að verkefnin takist og þeir sýni það undirmönnunum þá gefi það ekki rétt skilaboð og árangurinn verði eftir því.

Unnið með náttúrulegt eðli hrossa á námskeiðinu

Í raun má segja að náttúrulegt eðli hrossa sé það sem unnið er með á námskeiðinu. Íslensk hross alast upp í hjörð, þar er ákveðinn virðingarstigi og í hverri hjörð eru leiðtogar. Claudia segir mikilvægt að hrossin sem hún noti alist upp í hjörð. Þar læra þau þessa náttúrulegu hjarðhegðun og þess vegna sé íslenski hesturinn ákjósanlegastur í þetta verkefni því á Íslandi eru hrossin mikið úti frjáls í hjörðinni og þar er rúm fyrir þessa náttúrulega hjarðhegðun. Erlendis sé algengara að hrossin séu lokuð af í minni girðingum og í smærri hópum. Fimm af þeim sex hestum sem Claudia á eru fæddir á Íslandi.

Tamningar á hrossum snúast um það að maðurinn verði leiðtoginn í stað þess sem áður var það í hjörðinni. Hrossin eru því bæði háð leiðtoga að eðlislagi en einnig þjálfuð til þess af manninum. Hestamenn þekkja það margir að þegar þeir ætla að ná hrossum er eitt meira áberandi en hitt og misauðvelt getur verið að koma hjörðinni í aðhald eða hreinlega ná hrossunum úti í haga.

Nýtist til þess að halda virðingu og sess í kennslustofunni

Þegar Claudia fær kennara á námskeið fara þeir inni í girðingu með sex hrossum. Þar þurfa þau að vinna með hópinn á ýmsan hátt og eitt verkefnið er að koma hópnum úr einu horni í annað. Fólk fær ekki að vita hvaða aðferðum eigi að beita, en lykillinn er sá að sjá út úr hópnum hver er leiðtogi hópsins. Síðan þarf að vinna það hross á sitt band. Fá það til að treysta sér og bera virðingu fyrir sér. Um leið og það hefur tekist er ekkert mál að vinna með allan hópinn og færa hann til eins og þarf, enda fylgja hrossin leiðtoganum. Þetta þekkja margir kennarar eflaust. Ef í nemendahópnum er einstaklingur sem getur fengið aðra með sér þá er mikilvægt að viðkomandi beri virðingu fyrir kennaranum, að agi ríki og gagnkvæm virðing. Ef agatækjum er alltaf beitt á hina, sem ekki stýra ferðinni eða eru rótin að vandamálunum, þá tekst seint að vinna bug á þeim.

Nemendur Claudiu eru sjaldnast hestamenn og hafa margir ekkert komist í snertingu við hross enda er það hluti af þjálfuninni, að koma inn í nýjar aðstæður og ná tökum á þeim. „Stjórnendur verða að læra að skilja til að geta stjórnað. Þetta snýst um virðingu og traust. Allt það sama og þarf í samskiptum manns og hests og hestarnir eru mismunandi líkt og undirmennirnir eru mismunandi,“ segir Claudia.

Starfaði sem kennari í 17 ár áður en hún fór út í leiðtogaþjálfun

Áður en Claudia fór út í leiðtogaþjálfun af þessu tagi starfaði hún sem kennari í 17 ár og menntaði sig síðan í hrossaendurþjálfun. Hún segir hross reynast vel við þjálfun í sjálfstjórn og sjálfstyrkingu.

„Fólk leysir verkefnin á eigin forsendum og það er í lagi að gera mistök, það gera allir. Á námskeiðinu nær fólk fókus á ný. Ef fólk missir jafnvægi aftur þá veit það að það er kominn tími aftur á námskeið. Þegar þú ert „dottinn af baki“ í vinnunni er mikilvægt að koma og við hjálpum þér aftur upp,“ segir Claudia.

Eitt af þeim verkefnum sem stjórnendur fást við er að vera í girðingu með tveimur hrossum og þar á að finna út hvort hrossið er leiðtoginn. „Annað hrossið er stórt, en hitt er minna. Stjórnandinn þarf að sjá út samband þeirra og samskipti. Síðan þarf stjórnandinn að ná tökum á leiðtoganum, það er lykillinn. Þegar því er náð er stjórnandinn orðinn leiðtogi allra þriggja og getur því stjórnað aðstæðum,“ segir Claudia. Svipað verkefni og kennarar hafa, en þó miðað að stjórnendum fyrirtækja sem vinni í minni hópum, fremur en leiðtoga stærri hóps, sem kennarar eru. „Það er mikilvægt í þessu öllu fyrir stjórnendur að einblína á það sem skiptir raunverulegu máli en hugsa minna um það sem skiptir minna máli,“ segir Claudia.

Þjálfar einnig vinnustaðahópa í liðmennsku

Hún fær fólk einnig á námskeið frá stórum vinnustöðum og þar er fólk þjálfað í liðmennsku. Hún hefur fengið hópa frá 30 og upp í 70 manns frá fyrirtækjum eða stofnunum og lögð er áhersla á það að vera annarsvegar liðsmaður og hinsvegar leiðtogi í hóp. Einnig fær hún marga sem þurfa að ná tökum á stressi og hvernig á að komast yfir streitu í daglegu lífi. Hesturinn er hjálpartæki í öllu þessu.

„Hrossin hafa sjötta skilningsvitið. Þau skynja tilfinningar þínar og aðstæður. Þau skynja stress. Þegar nemandi velur hest sérðu hvernig karakter viðkomandi er og lest fólk í gegnum hrossin. Hvernig bregðast þau við og svo framvegis. Hrossin eru í raun spegill á þessa þætti. Þegar þú ert í vinnunni ertu með verkefni. Þú veist hver er yfirmaður þinn og hver er undirmaður þinn. Þá er mikilvægt að vita hvert verkefnið er, hver eru markmiðin og viðfangsefnið. Í kennslu er mikilvægt að bekkurinn viti hver er leiðtoginn. Börn þurfa að vita hver stjórnar,“ segir Claudia til að varpa betra ljósi á það afhverju hesturinn er svona gott viðfangsefni.

Konur fara aðrar leiðir að markinu en karlmenn

Claudia segir konur öðruvísi stjórnendur en karlmenn og í hóptímum skiptir hún konum og körlum gjarnan upp og fylgist með því hvernig hvor hópur tekst á við verkefnin. Hún segir að yfirleitt sé nálgunin mismunandi. Karlmenn fari aðrar leiðir að markinu en konur.

Talið berst að því hvort allir geti orðið leiðtogar. „Stíll stjórnunar er mismunandi. Það hvernig stjórnandi þú ert ræðst meðal annars af uppeldi, ætt, fæðingaröð og fleiri atriðum. Það eru allir með eld inni í sér. En það er þó ekki mikilvægast. Vatnið er mikilvægara. Vatnið gefur þér nýjar hugmyndir og flæði sem er mikilvægt fyrir stjórnanda,“ segir Claudia. Hún segir allra geta orðið stjórnendur, en sumir hafi það í eðlinu, aðrir þurfi að hafa meira fyrir því.

„Þarft að geta leitt sjálfan þig til að geta leitt aðra“

„Lykilinn að því að vera stjórnandi er að vera í góðu sambandi við sjálfan sig. Þú verður að þekkja sjálfan þig til þess að geta leitt aðra. Það er grundvallaratriði að geta leitt sjálfan þig fyrst,“ segir Claudia og bætir við: „Til að ná sem mestum árangri er best að stjórnendur og undirmenn séu sem fjölbreyttastir. Það má líkja fyrirtæki við fótboltalið. Einn hefur ekki allt sem til þarf. Þú þarft gott sambland af meginöflum jarðar í liðinu, vindi, eldi, vatni og jörð. Með vindinum færðu hugmyndir. Með eldinum færðu hreyfingu og kraft, með vatninu samvinnu og jörðin er nauðsynleg einnig því með henni koma peningar.“

Mikilvægt að stjórnendur hafi yfirsýn

Yfirsýn er mikilvægur þáttur í fari stjórnenda. Claudia segir að margir stjórnendur vilji vera fremstir og láti mest á sér bera, en á meðan viti þeir ekki hvað sé að gerast fyrir aftan þá eða hvernig einstakar deildir eða undirmenn vinni. Hún segir að stjórnendum sé nauðsynlegt að kunna líka að vera fyrir utan hópinn, fylgjast með og sjá hvað er að gera. Af hestum megi læra margt í þessu samhengi.

„Í stóðhestagirðingu hagar stóðhesturinn sér þannig. Hann stendur fyrir utan hryssuhópinn og fylgist með þeim, en er ekki inni í hópnum. Þegar hjörðin er á ferð hleypur stóðhesturinn fyrir aftan. Með þessu hefur hann yfirsýn og veit nákvæmlega hvað er að gerast og hann stjórnar,“ segir Claudia. Með því að láta fólk vinna með nokkur hross saman í girðingu opnast þetta oft fyrir fólki.

Hún segir þá sem til sín komi oftast fara af námskeiðinu með betri sýn og fókus á verkefni sín og hlutverk. Það nái fótfestu og jarðtengingu og sumir komi aftur ef fjarar undan þeim á ný í starfi.

Lærði mikið af Benedikt Líndal

Claudia segist hafa mikið lært af Benedikt Líndal, reiðkennara og tamningameistara. Hans starf og nálgun hafi kennt henni mikið. Að einblína á jákvæðu hliðarnar og vinna út frá þeim í stað þess sem áður var alltaf gert, við tamningar og þjálfun, að festast í mistökunum sem hrossin gerðu og því sem ekki gekk vel.

Hún nefnir fleiri eins og hestahvíslarann heimsfræga Monty Roberts, David Harris og Paul Hunting sem einnig býður upp á stjórnendaþjálfun með hestum á Bretlandi og skrifaði bókina „Why Talk to a Guru? When You Can Wishper to a Horse: The art of Natural Leadership.“ Af henni segir hún að margt megi læra.

Hún segir þýska rithöfundurinn Fritz Hendrich einnig hafa ritað góðar bækur um viðfangsefnið, bækur á borð við Horse Sense – Drei Schritte zum Charisma der Führung (Hestaskin – skrefin þrjú að karakter og leiðtogahæfni, sem fjallar um Alexander mikla og hest hans Bucephalus) og Die Vier Energien Des Führens (Fjögur efni leiðtogahæfni, jarðar, vatns, lofts og elds)

Hægt er að kynna sér starf Claudiu betur á heimasíðu hennar Magnus.ch sem er á þýsku. Magnús er einn af hestum hennar sem hún hefur unnið mikið með á þessum námskeiðum og er í uppáhaldi.

Claudia M. Sidler, hestahvíslari, þjálfari og reiðkennari, sem heldur námskeið ...
Claudia M. Sidler, hestahvíslari, þjálfari og reiðkennari, sem heldur námskeið í leiðtogaþjálfun með íslenska hestinn í Sviss á leið í útreiðartúr á bökkum Þjórsár í ágúst. mbl.is/Ingvar
Regula Horner, vinkona Claudiu sem hefur nýtt sér námskeið hennar ...
Regula Horner, vinkona Claudiu sem hefur nýtt sér námskeið hennar í kennarastarfi sínu og Claudia með Urriðafoss í baksýn. mbl.is/Ingvar
Ein af mörgum þrautum sem þarf að leysa á námskeiðum ...
Ein af mörgum þrautum sem þarf að leysa á námskeiðum Claudiu. Ljósmynd/magnus.ch
Regula Horner, Claudia og blaðamaður á bökkum Þjórsár.
Regula Horner, Claudia og blaðamaður á bökkum Þjórsár. mbl.is/Ingvar
mbl.is

Innlent »

Smíða síðustu bobbingana

19:11 „Við erum bara á síðustu metrunum og ég sé ekki annað en að tæki og tól fari í brotajárn, sem er bara hreinasta hörmung,“ segir Þórarinn Kristjánsson, framkvæmdastjóri Stáldeildarinnar á Akureyri. Meira »

60 þúsund á mánuði fyrir bókaskrif

19:00 Rithöfundur sem selur 1.500 eintök af bók sinni fær í sinn hlut tæpa eina og hálfa milljón króna í verktakalaun. Að baki getur legið tveggja ára vinna. Hvert fara þá allir peningarnir? Meira »

Hlýnun jarðar kallar á aukið samstarf

18:42 Alþjóðlegt vísindasamstarf er forsenda þess að unnt verði að skilja og bregðast við afleiðingum hlýnunar jarðar á umhverfi og samfélög á norðurslóðum. Þetta sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra er hún ávarpaði gesti á þingi Hringborði norðursins. Meira »

Æfðu björgun við krefjandi aðstæður

18:30 Slökkviliðsmenn frá Laugarvatni og Reykholti æfðu björgun í virkjunum Landsvirkjunar og Orku náttúrunnar á Nesjavöllum í gær. Æfingunum er ætlað að viðhalda þekkingu viðbragðsaðila þegar eitthvað kemur upp á í þessum tilteknu kringumstæðum. Meira »

Gangi út fyrir sig og aðrar konur

17:59 „Við erum að núna að setja kröfuna á atvinnurekendur og opinberar stofnanir um að það verði raunverulega settir í gang ferlar og verklagsferlar. Eins og hefur komið í ljós væri synd að segja að þetta sé allt saman komið í lag,“ segir Maríanna Clara Lúthersdóttir, verkefnastýra Kvennafrís 2018. Meira »

Eldur í rusli í Varmadal

16:28 Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu fór á fimmta tímanum í dag í útkall vegna elds í rusli og smádóti í Varmadal á Kjalarnesi. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði var í fyrstu talið að um húsbruna væri að ræða. Dregið var úr viðbúnaði eftir að annað kom í ljós. Meira »

Föðursystirin var ekki böðull

16:00 Þegar Burt Reynolds dó uppgötvaði undirrituð að hann var ekki Tom Selleck. Þar til þá hafði ég haldið að þeir væru einn og sami maðurinn. Um daginn hitti ég mann og þurfti að útskýra fyrir honum að Stefán Hilmarsson og Sigmundur Ernir væru ekki hálfbræður. Hann hafði líka haldið það hálfa ævina. Meira »

Aðgerðir vegna aukningar í nýgengi örorku

15:45 Nýgengi örorku og fyrirbyggjandi aðgerðir voru til umræðu á Þingvöllum á K100 í morgun en gestir Páls Magnússonar, þingmanns og þáttastjórnanda, voru þau Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Virk starfsendurhæfingarsjóðs, og Þórunn Gunnarsdóttir, iðjuþjálfi frá Virk. Meira »

Vill sjá meiri samvinnu Hafró og útgerða

15:22 „Öðru fremur hefur það verið pólitíkin og þessi pólitíski rétttrúnaður um það að aldrei megi leita að neinu úr smiðju útvegsmanna, sem hefur verið til skaða,“ segir Binni í Vinnslustöðinni. 200 mílur tóku hann tali í vikunni vegna fyrirhugaðrar loðnuleitar, en enginn kvóti hefur verið gefinn út fyrir loðnuvertíðina eftir að ekki fannst nægt magn af loðnu í loðnuleiðangri Hafrannsóknastofnunar. Meira »

Jón fyrirgefur ljót skrif um sig

14:53 Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður hefur ákveðið að fyrirgefa konunum sem létu ljót ummæli falla um hann í lokaða Facebook-hópnum „Karlar að gera merkilega hluti“. Jón Steinar skrifaði grein í Morgunblaðið á föstudaginn þar sem hann sagði frá ummælunum. Meira »

Sóttu mikið slasaðan skipverja

14:48 Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNÁ, var kölluð út til þess að sækja mikið slasaðan skipverja filippeysks flutningaskips nú fyrir hádegi. Skipið var statt um 60 sjómílur suðaustan við Vestmannaeyjar þegar þyrlu Landhelgisgæslunnar bar að á ellefta tímanum í dag. Meira »

Ekki eins og rúða í stofuglugganum

14:28 Brot í rúðu flugstjórnarklefa í farþegavél Icelandair sem kom upp í flugi frá Orlando til Reykjavíkur í gær var aðeins í ysta lagi rúðunnar, sem er eitt lag af mörgum. Þetta segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair í samtali við mbl.is. Meira »

Mál Áslaugar enn til skoðunar

13:13 Mál Áslaugar Thelmu Einarsdóttur, sem var sagt upp störfum sem forstöðumanni einstaklingsmarkaðar Orku náttúrunnar, er enn til skoðunar hjá innri endurskoðun Reykjavíkurborgar og hefur hún ekki fengið skýringar á því hvers vegna henni var sagt upp. Þetta skrifar Einar Bárðarson, eiginmaður Áslaugar Thelmu, á Facebook í dag. Meira »

Mun ekki höfða mál gegn femínistunum

12:37 Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður ætlar ekki að höfða mál gegn femínistunum sem höfðu um hann ljót ummæli á lokaða Facebook-svæðinu „Karlar gera merkilega hluti“. Jón Steinar var gestur Páls Magnússonar í þjóðmálaþættinum Þingvöllum á K100 í morgun. Meira »

Ójöfn lýsing á Reykjanesbraut

10:26 Vegfarendur á Reykjanesbraut hafa gert athugasemdir við nýja ljósastaura sem settir hafa verið upp við veginn. Ljósið sé mjög skært við staurana en algert myrkur sé þess í milli. Svæðisstjóri hjá Vegagerðinni segir að tekin hafi verið meðvituð ákvörðun um að uppfylla ekki lýsingarstaðla. Meira »

Miklar skemmdir á rúðunni

10:24 Flugáhugamaður og ljósmyndari hefur birt mynd af skemmdunum sem urðu á rúðu farþegavélar Icelandair þegar hún var á leið frá Orlando í Flórída til Keflavíkur aðfaranótt laugardags. Meira »

Gul viðvörun víða um land

08:59 Gul viðvörun er í gildi víða um land, en 980 mb lægð er stödd úti fyrir Húnaflóa og í nótt var suðvestanhvassviðri eða stormur á landinu. Þessu hafa fylgt miklar rigningar, en búast má við að snjói á fjallvegum norðvestan til og norðan til á landinu. Meira »

Stúlkurnar eru fundnar

07:40 Stúlk­urn­ar þrjár sem lög­regl­an lýsti eft­ir seint í gær­kvöld eru komn­ar í leitin­ar. Lög­regl­an á Suður­landi til­kynnti það á face­booksíðu sinni klukk­an fimm í nótt að þær væru komn­ar fram. Meira »

Ók bíl inn verslun og stakk af

07:36 Um ellefuleytið í gærkvöldi var bifreið ekið inn í verslun í Breiðholti. Engan sakaði en ökumaðurinn lét sig hverfa af vettvangi. Þegar lögreglan hafði samband við eiganda bifreiðarinnar kom hann af fjöllum og hafði ekki áttað sig á því að bifreiðin hafði verið tekin ófrjálsri hendi. Meira »
EAE Bílalyftur 2 pósta og skæralyftur 1 og 2 metra 3-4-5 tonna
Eigum á lager skæralyftur 3 tonna sem lyfta 1 m og einnig niðurfellanlegar 3 to...
STOFUSKÁPUR
TIL SÖLU NÝLEGUR HVÍTLAKKAÐUR STOFUSKÁPUR MEÐ GLERHILLUM. STÆRÐ: B=78, D=41 H=9...
Tunika - Peysa
Tískuverslunin Smart Grímsbæ/Bústaðavegi Tunika - Peysa St.14-28 kr. 4.990 St. S...